Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Varðandi ályktun fulltrúaráðs LSS og ummæli fulltrúa þess í Kastljósi í gær
Miðvikudagur 7. nóvember 2007 kl. 22:56

Varðandi ályktun fulltrúaráðs LSS og ummæli fulltrúa þess í Kastljósi í gær

Ótrúleg framsetning og alvarlegar ásakanir fulltrúa Landssambands slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna (LSS) voru bornar flugmálayfirvöldum í landinu og flugvallaryfirvöldum á Keflavíkurflugvelli; hvaða faglegu rök og samanburður skyldi vera á bak við „stóru orðin“ og hvað áhrif skyldu þessar fullyrðingar hafa á samfélagið og viðbragðsaðila á svæðinu?   

Að fullyrða með ályktun að „Öryggisviðbúnaður Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli (hafi) aldrei verið jafn lítill og nú, öryggi flugfarþega í neyð (hafi)  farið úr því besta sem í boði er, í það lélegasta”, er mjög alvarlegt, þá sérstaklega  gagnvart slökkviliðsmönnum og öðrum viðbragðsaðilum á svæðinu, og ekki síður getur þessi fullyrðing skapað hræðslu og óöryggi meðal flugfarþega og þeirra sem um Flugvöllinn fara.

Í máli sínu gerir formaður LSS lítið úr fyrsta viðbragði í neyðarástandi á Keflavíkurflugvelli og líkir útkallsstyrk Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli og nágranna slökkvi-og björgunarliðum, við útkallsstyrk og öryggi flugfarþega  í þróunar löndunum.  Af reynslu minni í þessu fagi þekki ég málið nokkuð vel og veit að þessar fullyrðingar eru rangar og hafa engan málefnalegan rökstuðning, því er vert að velta fyrir sér tilgangi LSS með þessum málflutning. 

Í máli Vernharðs, formanns LSS, kom fram óvænt þversögn í hvernig við nálgumst flugvélabruna.  Það verður að segjast að áhersla okkar og verkferlar stuðla að öryggi viðbragðsaðila t.d. að senda ekki slökkviliðsmenn inn í „mjög hættulegar aðstæður“ t.d. „inn í logandi flugvélaflak”, eins og Vernharð rökstyður að þurfi að gera.  Í slíku tilfelli er megin tilgangur fyrsta viðbragðs að tryggja slysavettvang og öryggi viðbragðsaðila þannig að skipulögð björgun geti hafist.  Í slíku tilfelli yrði öflugt viðbótarviðbragð slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna nágranna slökkviliða og björgunarsveita innan svæðisins, komið á slysavettvang innan fárra mínútna.

Ætla má að Formaðurinn virði „sína” félagsmenn á Suðurnesjum einskis þegar að hann metur „öryggisviðbúnað” á svæðinu, eða hvað skyldi hann vera að meina, þegar, Sigmar, spyrill þáttarins vísar í minnismiða frá LSS, og fullyrðir að næsta viðbragð sé í 30 mínútna fjarlægð frá flugvellinum? 

Vert er að upplýsa Formanninn um að  Flugslysaáætlunin fyrir Keflavíkurflugvöll, sem er nýlega uppfærð og samþykkt, gerir m.a ráð fyrir öflugu viðbragði frá nágrannaslökkviliðunum þ.e. að Brunavarnir Suðurnesja komi með bæði sjúkra- og slökkviliðsbíla ásamt 30 slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum á skaðasvæði innan tíu  mínútna, og að Slökkvilið Sandgerðis komi innan fárra mínútna með um 15 slökkviliðsmenn ásamt slökkviliðsbíl til björgunar-og slökkvistarfa.  Hlutverk Slökkviliðs Grindavíkur er að annast viðbragð í byggðarlögunum öllum meðan að slíkt ástand varir, þá má óska eftir aðstoð annarra Slökkviliða ef þörf þykir.  Að auki eru tugir björgunarsveitamanna frá Suðurnesjum og frá höfuðborgarsvæðinu, tugir lögreglumanna og öryggisvarða á svæðinu og tugir annarra viðbragðsaðila t.d. frá Sjúkrahúsum, RKÍ og fleirum í heildarviðbragðinu.

Vissulega hafa orðið breytingar í umsvifum á Keflavíkurflugvelli frá því þegar herinn fór.  Starfsemi Slökkviliðsins á Keflavikurflugvelli var á þeim tíma bæði víðtæk og mikil, oft voru staðnar vaktir vegna viðgerða og uppkeyrslu flugvélahreyfla, prófunnar á vélum og búnaði orrustuþota og flugvéla varnarliðsins.  Flugumferð og þjónusta sem beinlínis tengdist hernum, eins og margir þekkja, var mikil.  Þegar mest var voru 15 orrustuþotur ásamt fylgivélum staðsettar á Keflavíkurflugvelli, en þess vegna voru 15 manns á vakt í Slökkviliðinu þar.  Bæði hefur þjónustusvæði Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli minkað, 5000 manna íbúabyggð svæðisins er orðin hluti af Reykjanesbæ og því á ábyrgð Brunavarna Suðurnesja; sömuleiðis eru hreyfingar á flugvellinum mun færri. 

Farþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll búa við góðan öryggisviðbúnað.  Öryggisstaðall Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem er í heild sinni vel tækjum búið og vel mannað Slökkvilið með 11 til13 slökkviliðsmönnum á vakt í 24 tíma, alla daga ársins, er mun meiri en víða annarsstaðar á flugvöllum á Norðurlöndunum, þrátt fyrir að flugumferð og hreyfingar þar séu mun meiri.   Slökkviliðin á svæðinu búa yfir miklum mannauð og tækjakosti til björgunar og slökkvistarfa og finnst mér það með ólíkindum að  Formaður LSS og aðilar í Fulltrúaráði LSS skuli “gleyma” þessu viðbragði líkja öryggisviðbúnaði þ.e. tækjabúnaði, þjálfun og getu mannhalds sem og öryggi í verkferlum slökkviliða hér á svæðinu, við slökkviliðs- og viðbragðsaðila í þróunar löndunum, þar sem ástandið er mjög ábótavant og alls ekki sambærilegt okkar væntingum og mælikvarða.

Með von um jákvæðar viðtökur og heillindi í starfi,

Virðingafyllst,
Sigmundur Eyþórsson,
slökkviliðsstjóri BS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024