Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 4. nóvember 2002 kl. 17:19

Var vitlaust gefið?

Í Morgunblaðinu 2. nóvember fer Kristinn H Gunnarsson, formaður þingflokks framsóknarmanna fram á að þeir sem gagnrýnt hafa niðurstöðu heilbrigðisráðherra varðandi ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja geri grein fyrir hæfi umsækjendanna tveggja og leggi síðan fyrir lesendur blaðsins að meta málsatvik.Kristni hlýtur að vera ljóst að gagnrýnendur hafa ekkert með mat á hæfi umsækjenda að gera. Það er í verkahring matsnefndar og stjórnar HSS og liggur fyrir. Valdið er svo í höndum ráðherrans samkvæmt lögum og hann hefur beitt því. Ég vil hins vegar minna þingflokksformanninn á að í lýðræðissamfélögum ríkir hefð fyrir því að almenningi sé frjálst að hafa skoðanir á og efasemdir um réttmæti aðgerða stjórnvalda. Gagnrýni mín og efasemdir byggja eingöngu á þeim staðreyndum sem fyrir liggja í málinu. Þær eru að matsnefnd mat alla umsækjendur hæfa. Tveir voru taldir hæfastir og þeir kallaðir til viðtals. Þverpólitísk stjórn HSS, skipuð báðum kynjum, mælti með Skúla Thoroddsen sem hæfari umsækjanda að undanskildum fulltrúa ráðherra. Skyldi það hafa verið tilviljun ein? Heilbrigðisráðherra hunsar vilja stjórnarinnar og ræður Sigríði Snæbjörnsdóttur í stöðuna. Hann beitir fyrir sig jafnréttislögum, forréttindalögum kvenna, til að réttlæta ráðninguna. Það virðist geðþóttaákvörðun hverju sinni hvenær tekið er mark á niðurstöðu stjórnar eða mið af umræddum lögum í málum af þessu tagi. Það skyldi þó aldrei hafa verið vitlaust gefið enn einu sinni? Ég hirði ekki um að rithöggvast frekar við Kristin H Gunnarsson.


Jórunn Tómasdóttir, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024