Var tíminn of naumur?
Tilkynningin um brotthvarf Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli um miðjan mars síðastliðinn kom mörgum á óvart, en hjá öðrum var þetta nánast vitað mál. Umræðan fyrir rúmu ári síðan var á þann veg að flugherinn tæki við öllum rekstri stöðvarinnar af sjóhernum og hingað til lands komu háttsettir menn frá Evrópuherstjórn Bandaríkjanna og funduðu um málið. Niðurstöður voru síðan kynntar opinberlega í desember síðastliðnum á þann veg að flugherinn kæmi ekki til með að taka við rekstrinum og að sjóherinn héldi honum áfram, en þó yrðu gerðar frekari ráðstafanir til breytinga, meðal annars að breyta spítalanum í heilsugæslustöð ásamt viðvarandi samdrætti og sparnaði á flestum öðrum sviðum í rekstrinum. Í desember síðastliðnum var komin fyrsta vísbendingin um að til stæði að loka stöðinni. Sjóherinn var ósáttur við það fyrirkomulag að þurfa að halda rekstrinum áfram þar sem hann taldi sig vera á förum. Fjárhagsörðugleikar vegna fjárútláta í Mið-austurlöndum ásamt breyttu skipulagi hersins, spiluðu hér að sjálfsögðu lykilhlutverk í þessari ákvarðanatöku um að loka stöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Tímarammi Bandaríkjastjórnar í lokun stöðvar sinnar á Keflavíkurflugvelli og þar með tímarammi íslenskra stjórnvalda um leið til að semja um viðskilnað svæðisins ásamt urmul útistandandi mála varðandi áframhaldandi rekstur flugvallarins og til að mynda hvað samning Hitaveitu Suðurnesja varðar, telst óskiljanlega stuttur að mínu mati. Til samanburðar má nefna að til stendur að loka flotastöð á La Maddalena á Ítalíu, þar sem starfa um sautjánhundruð manns í það heila og voru átján mánuðir gefnir í lokunina þar og virðist sá tímarammi vera viðtekin venja við lokun flestra bandarískra herstöðva. Hér var brugðið hressilega út af vananum, þar sem rétt rúmir sex mánuðir voru gefnir til að pakka saman, semja og loka. Þessi þröngi tímarammi kom ekki hvað síst niður á þeim starfsmönnum Varnarliðsins og tengdum aðilum sem unnu út tímabilið, þar sem starfsmenn hurfu til annarra starfa sem skiljanlegt er og þar með fækkaði ört mikilvægum hlekkjum í heildarkeðjunni.
Tíminn vann svo sannarlega hvorki með bandarískum- né íslenskum stjórnvöldum, eða tengdum aðilum vegna lokunar stöðvarinnar. Ég tel að það hefðu verið miklir möguleikar að gera góða samninga um jafn mikilvæga hagsmuni og hér voru í húfi fyrir báða aðila ef tíminn hefði ekki verið svo knappur, en þó aðallega fyrir íslensk stjórnvöld sem tóku við svæðinu eftir stutta samningalotu. Ef til vill má líta svo á að þessi svokallaði „núll samningur” sem íslensk stjórnvöld náðu samningum um nýlega þurfi ekki endilega að vera svo slæmur, það mun þó skýrast þegar fram líða stundir. Nú liggur hins vegar fyrir brýnt verkefni, en það er að finna þessu svæði nýjan tilgang, þar sem vonandi mun þrífast einhvers konar atvinna og tækifæri fyrir íbúa á svæðinu í kring.
Íbúðarhúsnæði á svæðinu er í tiltölulega góðu ástandi yfirhöfuð, enda vel við haldið til fjölda ára. Það er hins vegar mikilvægt að þar skuli reglulegt eftirlit eiga sér stað með tómum íbúðunum og eftir atvikum að nauðsynlegt viðhald eigi sér stað þar sem þess telst þurfa, því eftirlitslaust húsnæðið gæti þýtt skemmdir með tímanum og þar með verðmætarýrnun um leið. Ég vísa allri umræðu um kakkalakka á bug, sú umræða á að minnsta kosti ekki við um neitt íbúðarhúsnæði á svæðinu.
Í lokin vill ég nýta tækifærið og þakka því góða fólki sem ég hef kynnst og unnið með síðastliðin fimm ár hjá Varnarliðinu og tengdum aðilum fyrir samstarfið og óska öllum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Andri Freyr Stefánsson,
laganemi,
fyrrv. fulltrúi hjá Húsnæðisdeild, Verkkaupa- og Samningadeild fyrrum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli