Vanvirðing eða virðingarleysi?
Í ferð FERLIRs-657 var m.a. komið við í Grænuborg ofan við Ytri-Njarðvík, eina af merkilegri minjum á Suðurnesjum. Grænaborg er gömul fjárborg og flokkast undir fornleifar. Af einhverri óskiljanlegri ástæðu var búið að koma tveimur stærðarinnar vörðum eða minnismerkjum fast við borgina. Til þess hefur þurft að nota stórvirk vinnutæki og er svæðið sunnan borgarinnar úttraðkað. Ekki hefur verið hreyft við borginni sjálfri, en líklega er það bara af slysni. Draga má þá ályktunr að sá eða þeir, sem þetta gerðu, hafi ekki haft hugmynd um að þarna væri gamalt mannvirki. Ef svo hefur verið er hér um vanvirðingu að ræða. Feikinóg annað rými er þarna á heiðinni til að koma fyrir slíkum "nýmóðins" sjónbrjótum. Stapagatan gamla liggur þarna ekki langt undan. Betra hefði verið að nota tækifærið og grjótið til að varða þá leið og gera hana sýnilegri áhugasömu útivistarfólki. Einnig mætti hugsa sér að hafa slíkt (nokkuð neðan og) undir Grímshól svona til að minna á þjóðsöguna af manninum er hitti bóndann er bauð honum í ver hjá sér og gekk með honum í hólinn. Ekki er að sjá að steinarnir við Grænuborg þjóni neinum skiljanlegum tilgangi - en vegir listarinnar eru bæði skoðunarskiptalegir og órannsakanlegir, hvort sem er með eða án tilgangs. Tekið skal fram að ekki er verið að leggja mat á "listaverkið", einungis staðsetninguna, sem virðist alveg´"út úr kú".
FERLIR