Vandi HSS og umræðan
Nýverið sendi framkvæmdastjórn HSS frá sér yfirlýsingu þar sem m.a. segir að í áratugi hafi HSS þurft að starfa í eitruðu umhverfi ómálefnalegrar umræðu sem sé ein af helstu orsökum mönnunarvandans. Þá segir að ef þessum árásum linni ekki verði vandinn sem við reynum samhent að leysa einfaldlega verri. Þessi viðbrögð bjóða ekki upp á samhenta lausn. Það hefur margoft komið fram að framlag ríkisins til heilbrigðismála á Suðurnesjum er mjög lágt og hefur ekki fengist leiðrétt. Er það ekki meginorsökin fyrir mönnunarvandanum og svo e.t.v. stjórnunar- og/eða skipulagsvandi á stofnuninni? Umræður um HSS hafa vissulega verið neikvæðar, stundum um of. Umræðuhefðin hér hefur lengi verið á neikvæðu nótunum og nauðsynlegt að hún verði málefnalegri.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja tók til starfa 1976. Í upphafi var umræða um hann í þessum neikvæða farvegi, hann naut lítils trausts, var talaður niður og margir foreldrar sendu börn sín í framhaldsnám í Reykjavík. Honum var í raun ekki gefið andrúm til að koma á stöðugleika í rekstri og mönnun. Með markvissu starfi starfsfólks skólans náði hann vopnum sínum, meginhluti starfsfólks býr nú á svæðinu og hefur starfað við skólann í áratugi. Skólinn nýtur nú trausts og mikillar aðsóknar.
Í fjölda ára var hér mikið og neikvætt umtal um grunnskóla. Vinur minn sem bjó úti á landi fékk vinnu hér fyrir um tuttugu árum og vinnur hér enn. Þau hjónin settu stefnu á að setjast hér að með sín börn en sú neikvæða mynd af grunnskólum sem við þeim blasti varð til þess að þau settust að í Hafnarfirði. Ég held að ég muni það rétt að Árni Sigfússon, sem varð bæjarstjóri í Reykjanesbæ 2002, hafi tekið málefni skólanna í fangið og átt drjúgan þátt í því að þeir njóta nú almenns trausts. Ég rifja þetta upp til að benda á að unnt er með markvissum aðgerðum að komast út úr storminum og ná sáttum og gagnkvæmu trausti.
Kvartanir og neikvæð umræða um HSS hafa verið viðvarandi í langan tíma og farið vaxandi. Þetta beinist ekki að starfsfólkinu, þó einhverjir læknar hafi fengið falleinkunn, heldur að skipulagi og aðgengi. Sjálfur hef ég ekki kynnst öðru en góðu viðmóti og þjónustu alls starfsfólks og þakka fyrir það. Ég get hins vegar ekki sætt mig við að þurfa að bíða í vikur eftir tíma hjá lækni eða að mæta á læknavaktina í fimm mínútna viðtal eða fá stuttan símatíma og hitta aldrei á sama lækninn. Ég hef því skráð mig hjá heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu þar sem ég hef fastan heimilislækni sem ég get leitað til með stuttum fyrirvara. Mér skilst að fjöldi fólks hafi gert hið sama. Talað er um einhver þúsund. Þetta ætti vissulega að létta á rekstrinum hér en virðist ekki gera það.
Það er bráðnauðsynlegt að koma umræðunni upp úr þessum hjólförum. Valgerður Björk Pálsdóttir segir í góðri grein í Víkurfréttum 23. febrúar að varnarviðbrögð stjórnenda HSS séu hrokafull sem ég tek undir. Slíkt eykur ekki traust og býður ekki upp á vitræna umræðu. Hún leggur til að komið verði á alvöru almennings samráði sem heilbrigðisráðuneytið stæði fyrir með þátttöku fulltrúa íbúa og HSS. Hún útskýrir þetta nánar í greininni sem ég bendi fólki á að lesa. Ég tek heilshugar undir hugmyndir hennar og tel að fulltrúar sveitarfélaganna (SSS) þurfi einnig að koma að þessu. Ég hvet sveitarstjórnir og fulltrúa HSS að stuðla að því að koma málum í slíkan farveg í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.
Undirbúningur að byggingu annarrar heilsugæslustöðvar mun vera á byrjunarreit. Nýlega var auglýst eftir bráðabirgðahúsnæði fyrir þá starfsemi ef ég man rétt. Kæmi e.t.v. til greina að skoða hvort ekki væri unnt að fá heimild til að stofna hér einkarekna heilsugæslustöð? Mörg dæmi eru um slíkar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu sem ánægja er með. Hugsanlega tæki styttri tíma að byggja upp slíka stöð en ef um opinbera framkvæmd er að ræða. HSS fengi þá samkeppni sem er af hinu góða.
Guðmundur Björnsson.