Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vandi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Sunnudagur 23. nóvember 2008 kl. 21:49

Vandi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Heilbigðisstofnun Suðurrnesja, HSS, er sennilega sú opinbera heilbrigðisstofnun sem heilbrigðisyfirvöld hafa vanrækt hvað mest undanfarin ár, og komist upp með það. Miðað við fólksfjölgun á svæðinu ætti þetta að vera stofnun í uppbyggingu en ekki endalausum niðurskurði. Þótt fyrir liggi að íbúafjöldaukning á Suðurnesjum hefur verið ein sú mesta á landinu undanfarin ár, hefur HSS ekki tekist að ná árangri í viðræðum við ráðuneytið um endurskoðun á reiknilíkani því sem notað er við útreikninga á fjárveitingum til stofnunarinnar. Þvert á móti berst erindi frá heilbrigðisráðuneytinu með beiðni um tillögur að 10% sparnaði í rekstri stofnunarinnnar. Og HSS bregst við með lokun skurðdeilda.

 
Í tilkynningu frá HSS, sem birtist í VF, föstudaginn 21. nóv. er lokunin rökstudd með orðunum ,,í ljósi þess að skurðstofur í Reykjavík og nágrenni eru þegar of margar og skurðdeild HSS hefur ekki verið að fullu nýtt frá því að hún var opnuð.” Auðvitað er það kostnaðarsamt að halda úti fullri þjónustu, ef ekki eru tryggð næg verkefni til HSS. Það skyldi þó aldrei vera að verkefnaskorturinn sé heimatilbúinn í ráðuneytinu sjálfu, þ.e. með því að leyfa of margar einkaskurðstofur á höfuðborgarsvæðinu, sem nú þarf að bjarga. HSS bugtar sig möglunarlaust fyrir vilja ráðherra. ,,Í ljósi þess rekstrarvanda sem stofnunin hefur átt við að glíma er einsýnt að í þessu sambandi er breytinga þörf,” segir HSS í yfirlýsingunni. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina að skera niður þær einkaskurðstofur í höfuðborginni, sem eru orðnar allt of margar, það þjónar ekki pólitíksum markmiðum Sjálfstæðismanna. Nei, fórnum fullkominni aðstöðu HSS, skerum niður og sendum sjúklingana í bæinn, er boðskapur Guðlaugs Þórs, Árna Matthíessen, fyrsta þingmanns kjördæmisins og fjármálaráðherra og aðstoðarmanns hans, Böðvars Jónssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar.
 
Í þeirri kreppu sem nú gengur yfir, er mikilvægt að standa vörð um velferðarkerfið. Það er okkar eina trygging ef annað bregst. Heilbrigðiskerfið er hluti af því kerfi. Pólitík og hugmyndafræði þeirra sem ráðið hafa hér landsstjórninni undanfarin 17 ár gengur út á aukna einkavæðingu og niðurskurð á opinberri þjónustu, þ.e. pólitík sem beðið hefur algjört skipbrot. Við megum ekki lengur láta þessa menn villa okkur sýn, hvort heldur þeir sitja í ríkisstjórn eða bæjarstjórn. Niðurskurður á þjónustu HSS er liður í þeirra plani og fullkomlega óþolandi fyrir Suðurnesjamenn.
 
Skúli Thoroddsen,
íbúi í Keflavík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024