Valdimar og Kalli með jólatónleika
Hljómsveitin Valdimar og söngvarinn Kalli munu sameinast í gleði þar sem próflokum og jólafríi verður fagnað með jólatónleikum í Frumleikhúsinu fimmtudaginn 16.des kl. 20:30. Miðaverð eru litlar 1.000 kr. en hægt verður að kaupa plötur á sértilboði á staðnum.
Hljómsveitin Valdimar er nýtt afl í íslensku tónlistarsenunni. Tónlist sveitarinnar spannar allan tilfinningaskalann og eru blásturshljóðfæri áberandi í lögum hennar. Sveitin gaf nýlega út frumraun sína Undraland, sem hlotið hefur frábærar viðtökur.
Kalli er nýbúinn að gefa út sína aðra sólóplötu sem fengið hefur frábæra dóma. Tónlistin er innileg og melódísk. Hljómur Nashville er áberandi á plötunni, enda naut Kalli aðstoðar sögufrægra hljóðfæraleikara við gerð plötunnar þar í borg.
Mynd: Plötur með Kalla og Valdimar.