Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 6. mars 2003 kl. 13:50

Valdaklíkan

Árið 1975 kom maður fram með skoðun á íslensku valdakerfi, sem var andstæð þeirri skoðun sem okkar ágæti forseti herra Ólafur Ragnar Grímsson hafði þá á kerfinu. Þessi maður var Finnur Torfi Stefánsson. Hann flutti útvarpserindi sem hann nefndi ,,Hin nýja stétt”. Að hans dómi var það lítil valdaklíka sem réði lögum og lofum í íslensku samfélagi. Hans skoðun var sú að þessi valdakjarni samanstæði af fjármagnseigendum, stjónmálamönnum og æðstu embættismönnum íslenska ríkisins. Hann sagði jafnframt að þessir menn byggðu vald sitt á yfirráðum yfir aðgangi á fjármagni ríkisins og fjölmiðlum.Eftir að hafa lesið þessa skoðun fannst mér sorglegt til þess að hugsa að næstum því 30 árum síðar er allt enn við sama heygarðshornið því ég get ekki betur séð en að enn sé valdaklíka við stjórnvölinn og leyfist mér að fullyrða að hún hefur farið vaxandi frekar en hitt. Og til þess að renna enn sterkari stoðum undir þessa fullyrðingu mína ætla ég að vitna í Þorvald Gylfason en hann segir í grein sinni Hagkvæmni og réttlæti frá árinu 1992 að veldi stjórnmálaflokkanna sé óeðlilegt og bendir á það hvernig stjórnvöld hafa fórnað dreifðum hag almennings á altari fámennra en harðsnúinna hagsmunahópa.

Hann segir einnig allt benda til þess að stjórnmálaflokkarnir muni neyðast til þess að láta undan kröfum almennings um aukna valdadreifingu, smám saman muni fólkið í landinu losna undan oki óeðlilegra en óæskilegra afskipta stjórnmálamanna. Að lokum taldi hann stjórnvöld sjá sig knúin til þess að hverfa frá núverandi stefnu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.
Þessi grein Þorvaldar er 10 ára gömul og þó að margt sem hann segir hafi komið á daginn þá hefur þessi spá hans enn ekki ræst. Þarna voru 17 ár síðan Finnur kom með sína skoðun á valdakerfinu og enn hafði ekkert breyst!

“Stétt með stétt”
Einn áhrifamesti stjórnmálaflokkur Íslands, Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn boðaði ,,stétt með stétt” gætir þess nú vel að vinna einungis með þeim valdamestu og ríkustu og tryggja hag þeirra til frambúðar. Sem dæmi má nefna að flokkurinn var fylgjandi frjálsu framtaki mannsins, í dag bannar hann hins vegar mönnum að sækja í eigin auðlind. Þessi flokkur, sem ég viðurkenni að var eitt sinn flokkur með ágæta stefnu, heyrir nú sögunni til hvað ágæti varðar.
Hinir velþekktu flokksmenn sem sjálfsagt skiluðu ómetanlegri vinnu í garð almennings, þeir Bjarni Benediksson og Ólafur Thors, hafa ábyggilega snúið sér oftar en einu sinni við í gröfinni þegar samfélagsþjónustan hefur verið svelt eins og berlega hefur komið í ljós með framkomu ráðamanna í garð sjúkra, aldraðra og öryrkja.
Bjarni Benediktsson var maður sem lagði mikið upp úr því að menn stæðu jafnir og að jafnrétti ríkti meðal manna. Ég gæfi mikið fyrir að heyra hvað hann segði um stöðu mála í dag!

Hin “mikla” velferð
Það stingur að heyra þjóðina státa sig af því að vera ein ríkasta þjóð heims og með öflugt velferðakerfi. Það má vera að á Íslandi séu einstaklingar með mikið milli handanna, sumir hverjir hverrar krónu verðugir vegna dugnaðar. En það eru líka einstaklingar með verðmæti sjávarauðlindarinnar á milli handanna, svo milljörðum skiptir og leyfist mér að fullyrða enn og aftur að margir hverjir hafa ekki einu sinni mígið í saltan sjó!! (ekki að það sé skilyrði fyrir því að verðskulda auðlindina, heldur kýs ég að nota þetta orðalag í því samhengi að sumir hverjir hafa ekkert komið nálægt fiskvinnslu né sjómennsku.)
Það er líka bláköld staðreynd að all nokkur hluti fólks lifir undir fátæktarmörkum í landinu. Þetta er staðreynd sem ekki er hægt og á ekki að hunsa.
Það sem ég vil með þessari grein minni segja þér kæri lesandi er að það er hægt að sjá Ísland með öðrum gleraugum en þeim bláu og grænu hvað hugmyndarfræðina varðar. Ég vona að unga fólkið hafi metnað í að bjóða komandi kynslóð bjartari sýn á framtíðina í okkar einstaka landi undir sanngjarnri stjórnun og jákvæðum afskiptum hins vonandi nýja ríkisvalds. Gildir þá einu hvort um sé að ræða sjávarauðlind, náttúruauðlind eða það allra mikilvægasta, fólkið í landinu.
Það er líka óskandi og hlýtt til þess að hugsa að í framtíðinni koma fram jákvæðari skoðanir á valdakerfinu en hér á undan hefur verið rætt. Og það er einlæg von mín að það séu fleiri á sama máli og óhræddir við að láta skoðun sína í ljós.

Frjálslyndir
Þann 10. maí gefst okkur kostur á að kjósa enn á ný. Ég trúi ekki að fólk vilji óbreytt ástand, nema kannski þeir sem eru þess aðnjótandi að fá að vera meðlimir í valdaklíkunni.
Frjálslyndi flokkurinn er nýr flokkur (4 ára) sem líkja mætti við Sjálfsstæðisflokkinn í þá daga er hann boðaði ,,stétt með stétt”. Nú þegar eru margir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins óánægðir með störf hans en hætta ekki á að láta hana í ljós vegna viðskiptahagsmuna sinna.
Allir eru velkomnir í Frjálslynda flokkinn enda er hér á ferðinni flokkur sem vill öllum vel og enda þótt eitt af hjartans málum flokksins sé afnám núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis þá er þetta síður en svo eins máls flokkur. Fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér stefnu flokksins bendi ég á heimasíðu hans um leið og ég slæ botninn í greinina. Megi nýtt kosningarár bæta hag almennings og færa okkur viðunandi ríkisvald!
www.frjalslyndir.is

Kristín María Birgisdóttir


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024