Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Uppbygging í Helguvík
Föstudagur 24. apríl 2020 kl. 13:00

Uppbygging í Helguvík

Ríkisstjórnin ásamt Mannvirkjasjóði NATO og Bandaríkjunum eru með í undirbúningi áætlun um uppbyggingu mannvirkja á öryggissvæðinu við Keflavíkurflugvöll á árunum 2021–2023. Sú áætlun sem nú er í smíðum mun koma til efnislegrar meðferðar Alþingis eftir að ríkisstjórn hefur lagt blessun sína yfir hana. Uppbygging hafnarkanta og ferjulags í Helguvík gæti hugsanlega orðið hluti af þessari áætlun. 

Við fögnum að sjálfsögðu allri uppbyggingu sem áætlanir eru um að geti átt sér stað hér á svæðinu en rétt er að benda á að á þessu stigi hefur málið hvorki verið samþykkt í ríkisstjórn né heldur hlotið þinglega meðferð og því óljóst hvort af því verði. Því eru fréttir helgarinnar um stórkostlega uppbyggingu í Helguvík orðum auknar og raunar sérkennilegt upphlaup af hálfu þingmanns í atkvæðaleit. 

Hins vegar er rétt að ítreka óskir um að Suðurnesin sitji við sama borð og aðrir þegar kemur að framlagi til ríkisstofnana á Suðurnesjum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Suðurnesin hafa orðið fyrir tvöföldu áfalli, fyrst vegna falls WOW Air og nú af þessari skæðu COVID-farsótt.

Ekkert svæði á landinu verður fyrir eins miklu höggi og Suðurnes og stefnir í að atvinnuleysi fari í vel á þriðja tug prósenta. 

Við viljum því brýna ríkisstjórn og þingmenn svæðisins til að ráðast nú þegar í þau verk sem hægt er að fara í, s.s. uppbyggingu hjúkrunarheimilis, tvöföldun Reykjanesbrautar og önnur verk sem hægt er að ráðast í með stuttum fyrirvara og gagnast munu samfélaginu hér suður með sjó. 

Guðbrandur Einarsson, 

Friðjón Einarsson,

Jóhann Friðrik Friðriksson, 

Guðný Birna Guðmundsdóttir,

Díana Hilmarsdóttir,

Styrmir Gauti Fjeldsted.

SJÁIÐ NÝJUSTU VÍKURFRÉTTIR 62 BLS. TROÐFULLAR AF FLOTTU EFNI!