Uppbygging eða niðurrif
Í Reykjanesbæ er meira atvinnuleysi en í nokkru öðru stóru bæjarfélagi á landinu. Við brottflutning Varnarliðsins glötuðust 1100 störf. Þar af voru 700 fyrirvinnur úr okkar bæ. Við höfum kappkostað að byggja upp fjölbreytt atvinnutækifæri og vorum á góðri leið með það þegar kreppa skall á. Atvinnuskapandi verkefni okkar hafa fæst þótt pólitískt ásættanleg af stjórnvöldum og lent í hinni margumtöluðu kattagryfju stjórnarinnar. Nægir þar að nefna undirbúning álvers í Helguvík, hafnarframkvæmdir, risagagnaver Verne Global, einkaheilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga og nú síðast ECA flugverkefnið.
Ég hef ítrekað sagt að vandi Reykjanesbæjar er sá að hér eru lægstu skatttekjur á íbúa á landinu. Stundum er eins og menn gleymi að skattar til okkar koma fyrst og fremst af launaðri vinnu. Okkur ber að veita þjónustu líkt og önnur sveitarfélög. Við höfum byggt upp góða innviði og ekki bruðlað með fjármuni. Við höfum fyrst og fremst fjárfest í góðum skólum, góðu umhverfi og aðstöðu fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Þótt við gerum það afar hagkvæmt hafa skatttekjurnar einar ekki nægt fyrir kostnaði. Við höfum því fjármagnað mismun hefðbundinna skatttekna og útgjalda með tekjum af arði og eignum. Við höfum treyst okkur til að gera það í ljósi sterkra eigna bæjarins og þeirra atvinnuverkefna sem eru í burðarliðnum og sannarlega geta skilað þúsundum manna vel launuðum störfum.
Í grein í Morgunblaðinu um síðustu helgi er fjallað um skuldastöðu Reykjanesbæjar og blaðamaður fullyrðir að skuldir á samstæðureikningi bæjarfélagsins þýði afar slæma stöðu, nánast gjaldþrot. Blaðamaður hnykkir á því að heildarskuldir samstæðu Reykjanesbæjar séu 43 milljarðar króna. Svo fylgir auðvitað ekki útskýring á þessari tölu í forsíðugrein Morgunblaðsins.
Hluti af þessum heildarskuldum samstæðu Reykjanesbæjar eru 8 milljarða kr. skuldir HS veitna. Samkvæmt því ættu allar skuldir Orkuveitu Reykjavíkur að vera þar innifaldar í skuldum Reykjavíkurborgar. Það væri sanngjarn samanburður en á hann er aldrei minnst. Skuld HS veitna er skráð í samstæðureikning bæjarins því Reykjanesbær á 66,7% í HS veitum. HS veitur hafa eignir að upphæð tæplega 17 milljarða kr. og 8 milljarða kr. skuldir. Þetta er því með sterkustu fyrirtækjum á landinu. Það eru hreint engar líkur á að Reykjanesbær taki á sig greiðslu þessara skulda, þótt þær séu skilmerkilega skráðar samkvæmt reikningsskilareglum. Í þessa heildarskuldatölu er einnig skráð árleg húsnæðisgreiðsla til eigin félags okkar EFF um 900 milljónir kr. Um leið og við greiðum mánaðarlega inn á reikning EFF, sem skráð er sem rekstrarútgjöld, er Reykjanesbær að eignast þessar fasteignir. En þessi árlega greiðsla er uppreiknuð til 30 ára í samræmi við greiðslutímann og þannig skráð inn sem heildarskuld að upphæð 13,5 milljarðar kr. Í samstæðureikningi eru svo eðlilega skráðar skuldir Reykjaneshafnar, hinnar sömu og er ætlað að hagnast verulega af starfsemi fyrir m.a. álver og kísilver. Skuldir hafnarinnar nema 4,5 milljörðum kr. Þá eru skuldir við Íbúðalánasjóð vegna félagslegra íbúða kr. 2,5 milljarðar.
Staðreyndin er að skráð staða eiginlegra lána bæjarsjóðs er í dag 7,8 milljarðar kr. og þau hafa lækkað frá áramótum um 1,1 milljarð kr. Miðað við eignastöðu sveitarfélagsins er þetta ekki óviðunandi staða en auðvitað þarf bæjarfélagið, eins og aðrir, að búa við eðlilega fyrirgreiðslu fjármálastofnana sem hefur ekki reynst auðhlaupið að fá um þessar mundir. Ekki hefur einelti stjórnamálaafla og fjölmiðla gagnvart Reykjanesbæ hjálpað þar til.
Háðsglósur nokkurra Íslendinga, sem nú hafa tekið að sér ráðgjöf um hvernig skuli reisa þjóðina við, eru að Suðurnesjamenn hafi „lifað á hermangi og vilji nú lifa á álmangi“ Þeir hirða ekki um sannleikann og þau fjölmörgu atvinnuverkefni sem við höfum unnið við að byggja upp, þeir hirða ekki um atvinnulausar fjölskyldur. Öll þau verkefni sem við höfum dyggilega undirbúið í þágu þúsunda landsmanna hafa hvert af öðru verið stöðvuð eða tafin. Enn erum við þó vongóð um að eitthvað af þessum verkefnum verði. En við erum orðin vonlaus um að þessi verkefni skili bæjarbúum og þar með Reykjanesbæ bættum hag á þessu ári. Því er ekki um annað að ræða en bregðast við með niðurskurði hjá bæjarsjóði, sem mun því miður koma niður á störfum bæjarstarfsmanna, endurskoðun styrkja og skipulagi þjónustu. Við leggjum kapp á fullnægjandi grunnþjónustu og að börnin njóti áfram verndar.
Við erum ósátt við hinar sýnilegu hendur ríkisstjórnar Íslands í málefnum okkar samfélags. Önnur höndin rífur niður, slær á nánast allt sem við reynum að gera í uppbyggingu atvinnumála á Suðurnesjum. Hin höndin heldur á loft bréfi sem dreift er til fjölmiðla þar sem við erum skömmuð fyrir fjárhagsstöðuna og krafin um aðgerðir annars skulum við hafa verra af.
Fjárhagsleg staða þúsunda fjölskyldna á Íslandi er grafalvarleg um þessar mundir. Við skulum ekki gera stöðu þessa fólks og þeirra nærsamfélaga enn alvarlegri með aðgerðaleysi í atvinnumálum. Við eigum að stuðla að fjölbreyttum störfum, allt frá álveri og gagnavinnslu yfir í heilbrigðis- og ferðaþjónustu. Þannig getum við frekar bætt stöðu okkar með því að auka atvinnu og skatttekjur í stað þess að fækka störfum og hækka skatta.
Við sjálfstæðismenn í bæjarstjórn ítrekum samvinnuvilja við alla flokka og yfirvöld til að koma atvinnutækifærum okkar í höfn. En við stöndum föst fyrir. Við tökum ekki þátt í innihaldslausum leðjuslag þegar við þurfum á samstöðu og heilindum í samvinnu að halda sem aldrei fyrr.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri.