Uppbygging á Ásbrú
Skarphéðinn Orri Björnsson skrifar.
Það hefur verið gaman að byggja upp fyrirtæki síðustu mánuði hér á Ásbrú. Þegar við vorum að leita að hentugum stað, til frambúðar, var margt sem skipti máli. Því skoðuðum við marga möguleika og veltum upp kostum. Það varð snemma ljóst að Ásbrú var spennandi kostur og margt sem studdi framtíðarstaðsetningu þar. Nálægð við flugvöllinn, öflugt orkufyrirtæki í bænum, mikið landsvæði og hentugt húsnæði skiptu máli. Mestu skipti þó viðmót væntanlegra samstarfsaðila. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar bjó til aðstæður sem gera fyrirtækinu kleift að vaxa áfram á næstu misserum, hvort sem við ákveðum að byggja eða breyta eldra húsnæði. Sá sveigjanleiki skiptir miklu máli. Áhugi sveitarfélagsins var ekki síður mikilvægur.
Reykjanesbær gerir sitt
Allt frá því að við hófum fyrst að þreifa fyrir okkur um staðsetningu var einn aðili öðrum fremur áhugasamur um að fá fyrirtækið í sinn bæ. Sá maður er Árni Sigfússon bæjarstjóri. Elja hans og ástríða fyrir framgangi bæjarfélagsins verður öllum ljós sem manninum kynnast. Það hefur gefið á bátinn hjá mörgum hér á Suðurnesjum síðustu árin og brottför hersins var gífurlegt áfall fyrir atvinnulífið. Að fylla í það skarð gat ekki gerst á einni nóttu. En með þrautseigju og opnum huga hefur mörgum fræjum verið sáð. Og núna er uppskerutími framundan. Uppskeran felst í fjölgun starfa og auknum skatttekjum. Meðal þeirra fyrirtækja sem eru að fylla í skarðið sem herinn skildi eftir er það sem ég stýri, Algalíf. Við hófum starfsemi í október á síðasta ári og erum í dag alls átján starfandi hér í bænum.
Áfram á sömu braut
Kosningarnar á laugardaginn snúast um áframhaldandi stefnufestu og uppbyggingu undir traustri forystu Árna Sigfússonar og Sjálfstæðisflokksins. Eða óvissuferð þar sem margir ólíkir flokkar þyrftu að koma sér saman um stefnu og markmið. Og alls óvíst að það tækist vel. Fyrir atvinnulífið skiptir stöðugleiki og traust miklu máli. Fyrir Suðurnesjamenn skiptir öflugt atvinnulíf öllu máli. Ég skora á kjósendur að fylkja sér um Árna Sigfússon og Sjálfstæðisflokkinn. Aðeins þannig er tryggt að bæjarbúar njóti ávaxtanna af þrotlausri vinnu og hugmyndaauðgi bæjarstjórans. Horfum bjartsýn fram á veginn og setjum X við D á laugardaginn.
Skarphéðinn Orri Björnsson
Framkvæmdastjóri Algalíf