Upp í loft með línurnar!
Í nýjasta blaði Víkurfrétta (26. janúar 2022) upplýsir upplýsingafulltrúi Landsnets okkur um að það sé ekki hættandi á að leggja rafmagnsstrengi í jörð hér á Suðurnesjum vegna jarðhræringa. „Ljóst er af öllum gögnum að rekstraröryggi jarðstrengs er verra en loftlínu m.t.t. jarðskjálfta og sprunguhreyfinga,“ segir fulltrúinn.
Í ljósi þessa er ljóst að það voru gerð mikil mistök hér um slóðir fyrir hálfri öld síðan þegar raflínur voru lagðar í jörð. Fyrstu árin sem raforku var dreift inn á heimilin voru allar línur í lofti, á staurum, út um allt!. Til mikillar prýði. Mér er sagt að þá hafi rafmagnið iðulega farið af, jafnvel dögum saman. Þó ekki vegna jarðskjálfta.
Síðan á sjöunda áratugnum voru þessar loftlínur teknar niður og lagðir jarðstrengir milli húsa og bæjarfélaga. Til dæmis fá Vogar allt rafmagn eftir jarðstreng utan frá Fitjum. Þvers og kruss um allar Suðurnesjabyggðir er rafmagn leitt í jarðstrengjum.
Nú skalf jörð hér dögum og vikum saman nýlega. Hljóta þessir jarðstrengir þá ekki að vera komnir í spað? Var rafmagnið ekki alltaf að fara af í skjálftahrynunni? Að vísu ekki hjá mér, en hjá þér?
Ef við tökum boðskap Landsnets alvarlega ættum við að steinhætta að leggja jarðstrengi í ný hverfi og setja raflínurnar á staura – og í framhaldi í eldri hverfum líka! Kannski væri rétt að setja vatns- og skólpleiðslurnar líka á staura, svo bévítans jarðskjálftarnir grandi þeim ekki?
Já, mér er fúlasta alvara!
Þorvaldur Örn Árnason.
Kominn til ára sinna og ólst upp við raflínur á staurum.