Upp á líf og dauða
Lundur Forvarnarfélag hefur verið með þjónustu hér í Reykjanesbæ í rúm tvö ár. Þjónustan felst m.a. í stuðningi, fræðslu og ráðgjöf fyrir alla þá sem hafa áhyggjur af heilsu sinni, sem orsakast af eigin misnotkun á áfengi og eða öðrum vímugjöfum, unga sem aldna. Einnig er stuðningur, fræðsla og ráðgjöf fyrir aðstandendur þeirra sem þurfa að umgangast þá sem þannig hefur farið fyrir. Þótt ótrúlegt sé þá eru aðstandendur oft og tíðum verr haldnir andlega og líkamlega heldur en fíklarnir, sem hafa ekki stjórn á neyslu sinni. Hjá þeim skapast ótti, kvíði o.fl. sem getur með langvarandi ástandi og aðgerðarleysi valdið varanlegum skaða ef ekkert er að gert. Á þessum tímum sem við erum að fara í gegnum núna, hefur það áhrif á alla, það er ekki spurning.
Neytendur þurfa meira fjármagn til að sinna neyslu sinni þar sem minna er um lausafé í fíkniefnaheiminum og minna lánstraust, því er lagst út í meira af innbrotum og meira af ofbeldi til að hafa ofan í sig og á. Mikið áfall og andlegt ofbeldi fylgir því að fá einhverja óvelkomna einstaklinga inn á heimili sitt, þar sem bæði geta verið ung börn eða aldrað fólk. Sumir ná sér aldrei eftir svona heimsókn. Það skiptir þá sem eru í neyslu engu máli hver er á staðnum því þeir eru svo gjörsamlega lausir við alla skynsemi og algjörlega siðblindir meðan ástandið varir, og í raun óttaslegnir sjálfir við lánardrottna sína. Með öðrum orðum; VÍTAHRINGUR.
Ég hef nokkuð oft heyrt um það að unglingar, allt niður í 14-15 ára börn, þá aðallega stelpur, eru í partýum undir áhrifum áfengis og fíkniefna, og þar er jafnvel fullorðið fólk einnig að skemmta sér. Eins og ég sagði hér að framan þá er fólk í þessu ástandi siðlaust og sneitt allri heilbrigðri skynsemi. Mér er líka kunnugt um að fullorðið fólk viti um að slíkt sé í gangi en láti það einfaldlega eiga sig. Svona fullyrðingar heyri ég oft um ástandið hér á Suðurnesjum. En í stað þess að láta foreldra, forráðamenn vita ( kemur mér ekki við ) þá eru þessir krakkar frekar notaðir á ýmsan hátt. Þessir unglingar, börn væri réttara að segja, taka því miður oft of stóra skammta, vita ekkert hvað þau eru að gera og eru send á sjúkrahús, nú eða vistuð annarsstaðar, OG ÞÁ OFT UPP Á LÍF OG DAUÐA. Ef foreldrar og aðrir aðstandendur eiga ekki erfitt andlega út af svona ömurlegum aðstæðum, þá veit ég ekki hvað. En hvað er gert? Oftast nær lítið eða ekki neitt, því miður Margir hugsa sem svo, þetta gengur yfir. Nei það gerist ekki þannig, það þarf stuðning, það þarf ráðgjöf. Það eru alltof margir foreldrar sem kenna sér um hvernig fyrir þeim er komið. ÞAÐ ER ÓÞARFI, þetta hefur oft ekkert með uppeldi eða þess háttar að gera, heldur er ekki spurt um stöðu eða starf, nei þetta kemur fyrir hvar sem er í þjóðfélagsstiganum, enginn er óhultur fyrir þessum vágesti. Það geta verið margar ástæður fyrir því að einhver fer að nota vímugjafa, t.d. einelti, lítið sjálfsmat, hópþrýstingur, áfall, óregla foreldra, misnotkun, andlegt/líkamlegt ofbeldi o.fl. þættir.
Stór hluti foreldra sem fær aðstoð frá félagsþjónustu, þá aðallega einstæðir foreldrar, bæði mæður og feður, myndu eflaust og án efa njóta góðs af því að mæta hjá ráðgjafa og/eða í foreldrafræðsluna hjá okkur Hún gerir ekkert annað en að styrkja okkur og fræða um hvernig á að bregðast við hinum ýmsu aðstæðum. Með öðrum orðum : GERA OKKUR LÍFIÐ LÉTTARA.
Læra að lifa sínu eigin lífi - ekki annarra.
Það þarf ekki vandamál til að leyfa sér að fá ráðgjöf og/ eða fræðslu, heldur er það fyrirhyggja, forvörn. Gott að vera undirbúinn ef á þarf að halda.
Lundur stendur nú á tímamótum þar sem mjög erfitt er að fá fjármagn til að geta staðið í þessu áfram. Bæjarfélögin hafa því miður alltof lítið gert í þessum efnum, sum EKKERT. Vonandi sjá þau að sér. ÞAÐ ER DÝRT AÐ HAFA FÓLK Í NEYSLU, atvinnulaust, á örorku, í fangelsum, á stofnunum o.s.frv.
Kynning, fræðsla, skemmtun og léttar veitingar 3. desember.
Fimmtudaginn 3.desember kl. 18:00 verður opinn kynningarfundur í húsakynnum Lundar að Fitjabraut 6c, nánar tiltekið í Sjálfsbjargarhúsinu, þar sem Björgin var áður til húsa.
Vonast ég til að sjá sem flesta foreldra, forsvarsmenn bæjarfélaganna hér á Suðurnesjum, kennara og fólk sem starfar að forvörnum, barnavernd og félagsþjónustu. Einnig þá sem starfa almennt að umönnunarstörfum, ekki veitir af að kynna sér hvað er í boði og auðvitað líka að sjá hvar við erum til húsa.
Nú eru blessuð jólin fram undan, jólin sem eru okkur svo kær. Þau eiga að vera tími gleði og friðar ekki satt? En eru því miður oft erfiður tími hjá sumum. Því er enn meiri ástæða til að heimsækja Lund og skoða hvað þar er í boði. Við skulum því fjölmenna n.k. fimmtudag.
Dagskrá:
Erlingur Jónsson kynnir starf Lundar.
Hera Ósk Einarsdóttir, félagsráðgjafi-forvarna á fjölskyldu- og félagsþjón-ustusviði Reykjanesbæjar.
Hörður J. Oddfríðarson, dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ.
Kalli Bjarni tekur lagið og segir frá sjálfum sér.
Léttar veitingar verða í boði Nettó.
Erlingur Jónsson