Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ungt fólk til áhrifa
Þriðjudagur 24. febrúar 2009 kl. 09:08

Ungt fólk til áhrifa

Ég er ánægður með hvað ungt fólk sem ég hitti á ferðum mínum um Suðurkjördæmi, er bjartsýnt á framtíð landsins. Spár um landsflótta á næstu árum eru ofmetnar að mínu mati. Ungt fólk er bjartsýnt og tilbúið að taka málið í sínar hendur. Það kemur líka glögglega í ljós þegar litið er til þeirra prófkjöra sem eru framundan hjá stjórnmálaflokkunum, þar lætur ungt fólk til sín taka.

Nýtt regluverk
Mikilvægt er fyrir almenning að taka þátt í prófkjörum og styðja ungt fólk til forystu. Við stöndum frammi fyrir því að regluverkið gaf sig undan ofsókn græðgisvæðingarinnar sem heltók þröngan hóp þjóðarinnar. Afleiðingarnar eru að almenningur í landinu blæðir, skert heilbrigðisþjónusta, atvinnuleysi, skuldafen og erfiðleikar, án þess að almenningur hafi neitt með það að gera hvernig fór.

Viðreisn sjálfstæðisstefnunnar
Sjálfstæðisstefnan var misnotuð á mjög neikvæðan hátt og því nauðsynlegt að reisa regluverk þjóðarinnar á nýjan leik, án möguleika á misnotkun. Sjálfstæðisstefnan er reist á frelsi einstaklingsins til komast áfram á eigin ágætum og hæfileikum án þess þó að það skaði aðra. Við sem sem viljum axla ábyrgð erum reiðubúin í að reisa samfélag þar sem allir búi við eðlileg lífsgæði á nýjan leik.

Framtíðarsýn
Ég hef þessa sterku framtíðarsýn fyrir land og þjóð. Ég vil hvergi annarsstaðar búa en á Íslandi og til að Ísland verði land tækifærana er ég reiðubúinn að leggja mitt að mörkum. Ég vil þjóðfélag þar sem einstaklingurinn geti blómstað án hafta og þvinganna. Ég vil fjölbreytta atvinnumöguleika, nýsköpun og spennandi sprotafyrirtæki. Ég vil gott heilbrigðiskerfi og næg hjúkrunarrými, tækifæri ungs fólks til menntunar og öfluga ferðaþjónustu. Ég vil verðtryggingu burt og lægri vexti. Ég vil samfélag sem við Íslendingar getum verið stoltir af.

Ungt fólk til áhrifa
Þann 14.mars nk. fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og sækist ég eftir stuðningi í 4. sætið. Ég er reiðubúinn að láta gott af mér leiða í þágu þjóðarinnar í þeirri viðreisnarverkum sem framundan eru. Ég vona að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi styðji ungt og metnaðarfullt fólk til áhrifa.

Árni Árnason
Blaðamaður í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024