Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ungmennaskipti 2017
Sunnudagur 20. ágúst 2017 kl. 05:00

Ungmennaskipti 2017

Unglingadeildin Klettur hjá Björgunarsveitinni Suðurnes hefur átt í samskiptum við þýska unglingadeild hjá samtökunum Technisches Hilfswerk eða THW. Samtökin voru stofnuð árið 1953. Starfsemin er ríkisfjármögnuð að mestu leyti en úthlutun til sveita er að mestu háð útköllum. Ef lítið er um útköll er lítið fjármagn til að moða úr árið á eftir. Þó er allur búnaður, s.s. tæki og fatnaður, skaffað af ríkinu. Helstu verkefni THW eru leitir, flóð, að skaffa hreint vatn og förgun úrgangsvatns. Einnig aðstoða þau í stærri slysum svo sem lestaslysum og stærri bílslysum.

Síðastliðið sumar heimsótti Unglingadeildin Klettur THW-Jugend Hauenstein en bærinn er staðsettur í suður Þýskalandi. „Við í Unglingadeildinni Kletti fengum krakka frá Þýskalandi í ungmennaskipti. Þau flugu til Íslands þriðjudaginn 4. júlí og  við í UD-Kletti kynntumst þessum krökkum smátt og smátt í verkefninu. Við byrjuðum ævintýrið á miðvikudeginum á því að fara í Skorradal með Þjóðverjana og þvílík stemning sem myndaðist þegar allir komu saman. Í Skorradal biðu okkar fleiri Þjóðverjar og einnig Hvergerðingar frá UD-Bruna. Fyrsta kvöldið var farið að vatninu og við kenndum Þjóðverjunum að fleyta kerlingar, fórum í fjallgöngur og marga skemmtilega leiki. Á föstudeginum fórum við svo í Hveragerði og gistum eina nótt. Þá nótt fengu Þjóðverjarnir að kynnast því hvernig er að fara í hálfgert útkall en þá höfðu umsjónarmennirnir sett upp fyrir okkur leit og þurftum við að fara út í nóttina og leita að slösuðum göngumanni. Leitin gekk vel og allir sáttir. Á laugardeginum fengum við að fara í klettana og síga, fjör ekki satt? Við eyddum heilum degi í að setja upp sigkerfi og síga. Við gerðum margt fleira eins og að fara í Sandvík og leita með snjóflóðaýlum og svo skelltum við okkur á báta, hoppuðum í sjóinn og fórum á bananabát. Við endum síðan á að fara í bæinn og skoða aðstöðu Neyðarlínunnar, Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins og fleira. Á síðasta deginum fórum við í ratleik um Reykjanesbæ og sýndum þeim alls konar skemmtilega hluti, við grilluðum, allir skiptust á pökkum og síðan var komið að kveðjustund þar sem Þjóðverjarnir flugu heim morguninn 14. júlí. Þetta hefur kennt okkur öllum eitthvað og var mikið fjör í kringum allt þetta.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ásta Sigríður Gísladóttir,
meðlimur í Unglingadeildinni Kletti

Unglingadeildin Klettur vill koma á framfæri þökkum til Evrópu unga fólksins sem styrkti verkefnið. Við hvetjum alla til að kynna sér Euf og erasmus+ styrki en þau styrkja alls kyns verkefni sem endurspegla markmið erasmus. Einnig viljum við þakka Myllunni, Vífilfell, Grími kokki, Slysavarnardeildinni Dagbjörgu, Slysavarnardeildinni Þórkötlu og Björgunarsveitinni Þorbirni fyrir samvinnu og aðstoð á meðan að á verkefninu stóð.