Unglingar í Reykjanesbæ til fyrirmyndar
Sameiginlegt árshátíðarball grunnskólanna í Reykjanesbæ var haldið 11. apríl sl. Undirrituð var starfsmaður á ballinu og tel ég mig knúna til þess að deila þeirri reynslu með lesendum. Þarna voru saman komnir um 400 unglingar úr öllum skólum bæjarins, unglingar af öllum stærðum og gerðum sem eiga sínar sterku og veiku hliðar á ýmsum sviðum hvort heldur sem er innan skóla eða utan. Allir voru mættir í sínu fínasta pússi staðráðnir í að skemmta sér og öðrum án nokkurra vímuefna og þeim tókst það svo sannarlega.
Foreldrar þeirra unglinga sem voru á umræddri skemmtun mega vera stoltir af börnum sínum því þau voru til fyrirmyndar í alla staði. Þegar hljómsveitin hætti að spila, tóku ballgestir sig til og dönsuðu einn Hókí pókí og trítluðu síðan út sælir og glaðir í bragði. Þetta var stórkostlegt og það voru stoltir starfsmenn sem horfðu á eftir unga fólkinu ganga út í nóttina. Umgengnin í Stapa var óaðfinnanleg, hvergi sást drasl á gólfum umfram það sem eðlilegt telst.
Ég nefndi það hér að ofan að ég teldi mig knúna til þess að skrifa um þennan viðburð, það kemur til af ýmsu og má þar m.a. nefna að mikið hefur verið rætt um námslegar framfarir og bætt skólastarf í grunnskólum bæjarins sem er bæði gott og jákvætt. Það gleymist hins vegar stundum í umræðunni um staðreyndir, prósentur og tölur að minnast á það sem hvað mestu máli skiptir en það er virðing, jákvæðni og gleði en þar var árangurinn framúrskarandi á umræddri skemmtun. Unga fólkið bar svo sannarlega virðingu fyrir hvert öðru, umhverfinu og sjálfum sér þegar það skemmti sér með gleði og jákvæðni að leiðarljósi. Þessum eiginleikum búa þau að og munu þeir nýtast þeim ekki síður en námslegur árangur.
Annað sem fékk mig til þess að setja þessi orð á blað er sú óþægilega tilhugsun að reynslan sýnir að hluti elstu nemenda grunnskólans, þeirra sem hefja framhaldsskólagöngu í haust mæta á fyrsta skólaballið sitt undir áhrifum áfengis eins og það sé hluti af því að byrja í framhaldsskóla.
Ég vona svo sannarlega að verðandi framhaldsskólanemendur haldi uppteknum hætti, mæti á skemmtanir framhaldsskólanna án vímuefna, með gleðina eina að vopni. Því eins og einhvers staðar stendur þá er gleðin besta víman.
Anna Hulda Einarsdóttir
Grunnskólakennari