Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ungir sjálfstæðismenn lýsa vonbrigðum með stöðu mála hjá HSS
Mánudagur 8. febrúar 2010 kl. 15:55

Ungir sjálfstæðismenn lýsa vonbrigðum með stöðu mála hjá HSS


Stjórn Heimis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ lýsir vonbrigðum sínum með stöðu mála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Stefnuleysi ríkisstjórna síðustu ára í málefnum HSS hefur leitt til þess að lítil festa er í rekstri stofnunarinnar, illa gengur að manna stöður lækna og hjúkrunarfólks og viðhorf íbúa til þjónustunnar er neikvætt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á síðustu 6 árum hafa ákvarðanir heilbrigðisráðherra varðandi skurðstofuþjónustu á Suðurnesjum breyst fjórum sinnum. 2004 ákvað þáverandi ráðherra að byggja upp 2 nýjar, rándýrar, skurðstofur við HSS. Næsti ráðherra dró úr fjármunum til byggingar og reksturs þeirra, þriðji vildi veita stofnuninni svigrúm til að skapa sér sértekjur með útleigu á skurðstofunum sem sá fjórði bannaði með öllu og núverandi ráðherra ákveður svo að leggja starfsemina alfarið niður.
Endalaus hringlandaháttur stjórnvalda hefur dregið máttinn úr HSS og um leið úr vilja starfsfólks til þess að ráða sig til stofnunarinnar. Það þýðir að heilsugæslan er undirmönnuð og getur ekki með nokkru móti sinnt eðlilegri þjónustu við íbúa Suðurnesja á hefðbundnum vinnutíma. Líkur íbúa að fá þjónustu læknis á dagvinnutíma án mikils fyrirvara er hverfandi en í staðin er fólki bent á að koma á kvöld- og helgarvaktir lækna.

Ljóst er að rekstur HSS er ríkisvaldinu ofviða. Margra ára tilraunir til að bæta ímynd stofnunarinnar og lagfæra þjónustuna hefur ekki skilað árangri undir stjórn ríkisins. Hugmyndir sveitarfélagana um aðkomu að rekstri HSS virðast hafa verið slegnar út af borðinu af hálfu ráðherra án þess að nokkur umræða hafi farið fram enda er ljóst að ráðherra er afar ósátt við umfjöllun stjórnenda og starfsmanna um stöðu mála hjá HSS og leggst gegn eðlilegri og lýðræðislegri umfjöllun um málið.


Með skýrri framtíðarsýn sem fylgt væri til lengri tíma má spara miklar fjárhæðir. Réttast væri að treysta starfsfólki HSS til að móta þá stefnu og fela sveitarfélögunum framkvæmd hennar enda er heilsugæsla nauðsynleg nærþjónusta sem á að tilheyra rekstri sveitarfélaganna.

Stjórn Heimis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, samþykkti ofangreinda ályktun um HSS.