Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ungbarnaleikskóli, raunhæfur og mikilvægur kostur
Föstudagur 18. maí 2018 kl. 11:05

Ungbarnaleikskóli, raunhæfur og mikilvægur kostur

Reykjanesbær er ört stækkandi sveitarfélag og mikilvægt að hér sé þjónusta í takt við það besta sem gerist á landinu. Við vitum öll að nýbakaðir foreldrar eru í mismunandi aðstæðum. Sumir búa svo vel að hafa ömmur og afa, frænkur og frændur til að hjálpa til við barnapössun þegar þeir þurfa að halda aftur út á vinnumarkaðinn eftir fæðingarorlof. Aðrir lenda í verulegum vandræðum hvað varðar dagvistunarúrræði og oft reynist það þrautinni þyngra að komast að hjá dagforeldrum þar sem sú þjónusta er oft umsetin. Ungbarnaleikskóli í Reykjanesbæ gæti því verið mikilvægur valkostur sem viðbót við núverandi þjónustu bæjarins og þannig komið til móts við mismunandi þarfir foreldra.
 
Markmiðið að geta boðið foreldrum upp á dagvistun fyrir börn frá 12 mánaða aldri
 
Í dag starfa 27 dagforeldrar í Reykjanesbæ með um 120 börn í vistun. Vistunargjald fyrir barn hjá dagforeldri í 8 klukkustundir eru um 110.000 krónur á mánuði. Niðurgreiðsla Reykjanesbæjar fyrir 8 klukkustunda vistun eru 50.000 krónur. Foreldrar greiða því um 60.000 krónur mánaðarlega fyrir hvert barn og Reykjanesbær greiðir því rúmlega 6 milljónir í niðurgreiðslur mánaðarlega 11 mánuði ársins, eða rúmlega 66 milljónir á ári. Í flestum tilfellum eru börn tekin inn á leikskóla í Reykjanesbæ eftir 20 mánaða aldur en það kemur fyrir að börn sem fædd eru snemma á árinu bíði þar til eftir sumarleyfi leikskólanna og eru þá orðin rúmlega tveggja ára gömul þegar leikskólaganga hefst. Við hjá B-listanum viljum hefja vinnu við að skoða möguleika á opnun ungbarnaleikskóla í Reykjanesbæ á kjörtímabilinu með það að markmiði að geta boðið foreldrum upp á vistun fyrir börn frá 12 mánaða aldri þegar verkefninu lýkur.
 
Vanda þarf til verka og hefjast handa sem allra fyrst
 
Í dag gera áætlanir bæjarins ekki ráð fyrir byggingu ungbarnaleikskóla. Gera þarf nákvæma kostnaðargreiningu og áætlun sem tekur mið af þörfinni á næstu árum. Einn kosturinn gæti falist í því að gera samning við einkaaðila um þjónustuna en bæði Skólar ehf. og Hjallastefnan reka nú þegar ungbarnaleikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Hinn kosturinn væri sá að bæjarfélagið stofnseti ungbarnaleikskólann og starfræki hann til framtíðar.  Árangur snemmtækrar íhlutunar hefur sannað sig á undanförnum árum og því hefur áherslan á hana aukist til muna. Í ungbarnaleikskólanum felast tækifæri til markvissrar þjálfunar t.d. í málörvun og félagslegum samskiptum m.a. í gegnum leiki og samveru. Markmiðið okkar er skýrt. Við viljum bjóða upp á raunhæfan valkost þar sem þjónustan er í takt við það besta sem gerist á landinu. Til þess að svo megi verða þarf að vanda til verka og hefjast handa sem allra fyrst. Við getum gert það!
 
Díana Hilmarsdóttir, 
skipar annað sætið á B-listanum í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024