Umhverfissamtökin Blái herinn 10 ára í gær
Þann 1. apríl 1998 komu nokkrir sportkafarar saman ásamt Stefáni Bjarkasyni frá Reykjanesbæ og undirritaður til að stofna áhugaklúbb sportkafara á Suðurnesjum. Þessi hópur varð síðan aðalkjarninn í Bláa hernum sem í dag fagnar 10 ára afmæli. Á þessum tíu árum hefur vissulega margt mjög áhugavert þokast rétt áfram í umhverfismálum þeim sem Blái herinn lagði af stað með í upphafi og annað gengur hægar. 10 ár er ekki langur tími en hver dagur er dýrmætur til að leggja á ráðin með það hvernig hægt er að betrumbæta umhverfið okkar og bæta þar með vellíðan okkar. Blái herinn vill þakka af alúð öllum þeim sem lagt hafa okkur lið í gegnum árin og stutt baráttu okkar. Vel yfir 300 tonn af alls kyns rusli og drasli hefur verið hreinsað úr umhverfi Reykjanesskagans og yfir 20 tonn annars staðar á landinu. Áfram verður unnið í þessum efnum á meðan okkur endist aldur og kraftur til, ennþá er af nógu að taka því miður en vonandi fer því nú að linna að fólk hendi frá sér rusli útí okkar fallegu náttúru. Allir Suðurnesjamenn eiga að vita betur og það á að vera sameiginlegt hagsmunamál okkar sem byggjum þetta land að hugsa betur um þessi málefni, þ.e. endurvinnslu og betri umgengni við umhverfið.
Virðingarfyllst
Tómas J. Knútsson
Formaður Bláa hersins