Umhverfisráðherra utan hrings
Það var fagnaðarefni að heyra þau fyrirheit höfð eftir forsætisráðherra um helgina að suðvestur lína vegna álvers í Helguvík yrði ekki hindrun í vegi framkvæmda. Ekki er hægt að túlka orð Jóhönnu á annan hátt en þann að ríkisstjórnin ætli refjalaust að standa við Stöðugleikasáttmálann með því að leggja ekki steina í götu stórframkvæmda sem þegar liggja á borðinu. Það mun draga mjög úr atvinnuleysi á Suðurnesjum þegar framkvæmdir hefjast af fullum krafti í Helguvík en rúmlega 4000 ársverk eru við byggingaframkvæmdirnar sem taka fjögur til sex ár. Loksins, loksins er von um að málið sé komið á hreyfingu og innlendar hindranir á undanhaldi.
Þá bregður svo við að umhverfisráðherra setur undir sig hornin og kannast ekki við að málið hafi verið rætt í ríkisstjórn. Hún, Svandís Svavarsdóttir, ætli sér allan þann tíma sem þarf til að skoða málið, það sé ekki forsætisráðherrans að tjá sig með þeim þætti sem raun varð á og Jóhanna er krafin reikningsskila orða sinna. Undir það taka svo atburðafjölmiðlarnir.
Spyrja má hvort nefndur umhverfisráðherra sé ekki með í ríkisstjórninni, sé utan hringsins. Þurfa forsætisráðherra og fjármálaráðaherra sem leiðtogar stjórnarflokkanna sérstakt leyfi umhverfisráðherra til að standa við samninga ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins um að reyna að koma hjólum atvinnulífsins af stað? Þarf leyfi umhverfisráðherra til að taka á vanda heimilanna og snúa við þeirri öfugþróun að hér gangi tíundi hver maður atvinnulaus, já reyndar sextán af hundraði félaga í Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis þar suður með sjó?
Að umhverfisráðherra brjóti lög og reglur í úrskurði sínum um suðvestur línu frá því í sumar, þvert á leiðbeiningar eigin embættismanna um annað, hélt maður að væri lokaatriðið í að tefja málið og jafnvel að koma því á kné. Ó nei. Hann er ekki af baki dottinn ráðherrann og setur ofan í við forsætisráðherra og flokksformann sinn í leiðinni og þykist ekki vita um samkomulag ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarinns. Ráðherra virðist veruleikafirrtur eða ekki starfi vaxinn nema hvort tveggja sé. Eitt sýnist næsta víst að umhverfisráðherra hefur enga samúð með því atvinnulausa fólki sem mælir göturnar þessa dagana og virðist því miður einnig hafa takmarkaðan skilning á því umhverfismeðvitaða samspili atvinnulífs og náttúru sem efst eru á baugi þeirra aðila sem leggja áherslu á sjálfbæra þróun og umhverfisvernd. Ráðherrann hefur áður sett tímaáætlanir verkþátta og fjármögnun Helguvíkurverkefnisins í uppnám með yfirlýsingum sínum og ólögmætum úrskurði og enn er atlaga boðuð. Það er dapurlegt til þess að vita að umhverfisráðherra sé ekki samstíga félögum sínum í ríkisstjórninni, að hann hunsi vilja verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins á afar hæpnum forsendum.
Álverið í Helguvík sem er fjárfesting í erlendum gjaldeyri mun skapa 650 störf til langs tíma að framkvæmdatíma loknum. Starfsgreinasamband Íslands fagnar yfirlýsingu forsætisráðherra og hvetur ríkisstjórnina til að hrinda hindrunum úr vegi hvort sem Svandís Svavarsdóttir verður með í för eður ei.
Skúli Thoroddsen
framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands