Umbót svarar kallinu!
Skólafélagsráðgjafa í skólana okkar
Þörfin:
Á síðastliðnum áratugum hefur orðið breyting á okkar samfélagi á landsvísu. Félagsmótunarhlutverk skóla hefur aukist sem hefur aukið álag á kennara og starfsfólk grunnskóla til að sinna ekki bara kennslu heldur einnig velferð og vellíðan nemenda. Ein af grundvallar stefnumálum Umbótar fyrir kosningarnar er að ráða skólafélagsráðgjafa í skólana okkar.
Hugmyndafræðin:
Af hverju skólafélagsráðgjafi? Verksvið skólafélagsráðgjafa er fjölbreytt, en þeir leitast við að hafa heildarsýn yfir aðstæður. Það felur í sér samskipti á milli heimilis og skóla, beina ráðgjöf við nemendur og fjölskyldur, ásamt því að veita kennurum handleiðslu og ráðgjöf. Ungmenni okkar verða fyrir ýmsum hindrunum í einkalífi, í fjölskyldulífi og innan skólakerfisins. Áherslur skólafélagsráðgjafa ná yfir allt það í lífi barna sem hefur truflandi áhrif á menntun þeirra og lífsgæði. Skólafélagsráðgjöf hefur að markmiði að fjarlægja hindranir og skapa skólaumhverfi sem ýtir undir árangur fyrir öll börn og örva félagslegan og tilfinningalegan þroska nemenda.
Skólafélagsráðgjafar leika mismunandi hlutverk í tengslum við ólíka hópa nemenda í áhættuhópum. Fyrst og fremst er mikilvægt að þekkja þá hópa nemenda sem eru í áhættu, ganga í gegnum erfiðleika og eiga erfitt með að standast kröfur skólans. Þess vegna skiptir snemmbær íhlutun og forvarnir miklu máli. Skólafélagsráðgjafar mynda mikilvæga brú á milli skóla, fjölskyldu og samfélags. Vandamál sem barn eða ungmenni glímir við í grunnskóla verða alvarlegri og kostnaðasamari ef ekki er brugðist við strax í upphafi.
Lausnin:
Við í Umbót viljum ráða til starfa til að byrja með tvo skólafélagsráðgjafa sem myndu starfa miðlægt frá fræðsluskrifstofunni og fara inn í hvern skóla. Við viljum í kjölfarið meta og þarfagreina frekar verkefnið í samvinnu við skóla og foreldra eftir tvö ár.
Kostnaðurinn:
Kostnaðurinn við verkefnið er 26-30 miljónir á ársgrundvelli. Við í Umbót erum viss um að þeim fjármunum er vel varið og skynsamleg lausn til að svara ákallinu. Auka þarf strax sérfræðiþekkingu innan skólakerfisins, gæta að hag barna og ungmenna okkar, vera til staðar fyrir foreldra og auka ráðgjöf og handleiðslu til kennara.
Verkefnið er mikilvægt. Við þurfum þinn stuðning til góðra verka í þágu barnanna okkar. X - U
Margrét Þórararinsdóttir, oddviti Umbótar
Úlfar Guðmundsson, 4. sæti Umbótar