Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Um trúverðugleika
Föstudagur 16. desember 2016 kl. 14:13

Um trúverðugleika

Á borgarafundi í Stapa nýlega komu fram efasemdir um trúverðugleika þess að fyrirtækið United Silicon greiddi fyrir mælingar á loftgæðum. Fjölmiðlar hafa m.a. bent á þennan punkt.

Af þessu er rétt að taka eftirfarandi fram: Samkvæmt lögum skal framkvæmdaaðili greiða fyrir umhverfismælingar. Sá háttur er alls staðar hafður á enda líka e.t.v. eðlilegt að kostnaður vegna framkvæmda skuli greiddur af þeim aðila. Ekki er þar með sagt að framkvæmdaaðili ráði nokkru um mælingarnar. Í umræddu tilviki (Helguvík) tóku Orkurannsóknir Keilis að sér að annast mælingarnar.  United Silicon (US) greiddi fyrir búnaðinn en sérfræðingar Orkurannsókna og Umhverfisstofnun ákváðu gæði hans. US hefur að öðru leyti ekkert um mælingarnar að segja. Sérfræðingar Orkurannsókna unnu með Umhverfisstofnun að því ákvarða staðsetningu búnaðarins, hvaða efni skyldu mæld o.s.frv. US hafði nákvæmlega ekkert um það mál að segja. Markvisst hefur verið unnið að því að setja mælingarnar á www.andvari.is þannig að skiljanlegar verði öllum. Markmiðið er einmitt að hafa mælingarnar og ferlið allt opið öllum þannig að almenningur geti fylgst með loftgæðum umhverfis Helguvík. Mælt er á 10 mínútna fresti. Hér er byggt á nákvæmum mælum eftir forskrift Umhverfisstofnunar og gögnin birt á þann hátt að allir eigi aðgang að þeim.  Sérfræðingar Orkurannsókna Keilis hafa af einstakri natni og samviskusemi lagt sig fram um að skila góðu verki sem felur í sér nákvæmar mælingar á loftinu í og við Helguvík og birta þær aðgengilegar öllum.  Ekkert mat er lagt á niðurstöður né afstaða tekin til starfsins í Helguvík. Nógir aðrir eru til þess.  Sérfræðingunum (sem sumir eru búasettir í Reykjanesbæ) er annt um starfsheiður sinn og hafa í hvívetna fylgt eftir forskrift laga og ábendingum Umhverfisstofnunar. Ég hvet fólk til að skoða www.andvari.is og sjá hvernig staðan er á loftgæðum í og við Helguvík.

Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri Keilis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024