Um sígrænar skrautjurtir
Fátt gleður augað meir en að ganga um snæviþakta jörðina og mæta sígrænum gróðri sem stingur í stúf við umhverfið. Upplifunin mýkir hugarástandið og færir manni von um nýtt vor með hækkandi sól. Áhrifin eru kannski enn meiri í snjóleysi þegar allt annað er visið og jörð þakin fölnuðum laufblöðum sem stöðugt eru á ferð í vetrarvindunum. Það þykir ekki mikið augnayndi að draga inn í stofuna fölnað lauftré á jólum til að skreyta, þótt menn í árdaga hafi smíðað sín eigin tré og puntað með mosa.
Sígræn tré og runnar fella hvorki blöð né barr þótt litur þeirra taki ýmsum blæbrigðum eftir árferði. Vetrargrænar jurtir fella laufblöð að vori. Fjölbreytileiki sígrænna runna og trjáa sem kominn er á markaðinn hér á landi er mikill og það er hrein upplifun að ganga um svæði þar sem mismunandi tegundum er haganlega fyrir komið. Vaxtareigileiki hverrar tegundar gerir kleift að tengja stór svæði í eina heild en samt fá notið einstaklinganna. Margar tegundanna eru nægjusamar á jarðveg þótt æskilegt sé að hann almennt sé vel framræstur. Sumar eru skuggaþolnar, aðrar vilja birtu. Fáar plöntur sóma sér betur í steinhæðum. Að láta einivið þekja skófumvaxið stórgrýti þykir ritara magnað. Lyngrósir, ýmsar barrviðaplöntur og kristþyrnir eru dæmi um sígræna runna. Ný yrkji hverrar tegundar berast til landsins og reynslan gerir kleift að velja það sem hentar hverjum stað.
Suðurnesjadeild Garyrkjufélags Ísland hefur nú sitt sjötta starfsár með umfjöllun um sígrænar skrautjurtir. Fyrirlesari er Hannes Þór Hafsteinsson líffræðingur og garðyrkjufræðingur. Hann er mikill viskubrunur um hvers kyns ræktun, auk þess mikill fuglaáhugamaður og lífskúnsner. Fyrirlesturinn verður haldinn í húsi Rauðakross Íslands að Smiðjuvöllum 8, miðvikudaginn 20. apríl (síðasta vetrardag) og hefst kl 20. Léttar veitingar í boði.
Aðgangseyrir kr. 500. Allir velkomnir.