Um rotarý, kirkjuklukkuna og hjólið
Hjólið er gjarnan talin ein merkasta uppgötvun mannkynssögunnar, enda erfitt að ímynda sér heiminn án hjólsins. Orðtakið „að finna upp hjólið“ er meitlað í tungumál okkar og lýsir gjarnan uppgötvun í daglegu lífi sem menn viðurkenna þó að sennilega hafi verið gerð áður. Margt er enn á huldu um hverjir fundu upp hjólið, en fornleifafræðingar leiða þó líkur að því að það hafi verið fundið upp fyrir nærri 10.000 árum einhvers staðar í Asíu. Heiðurinn af uppgötvuninni hefur yfirleitt verið veittur Súmerum, framsæknu menningarsamfélagi í Mesópótamíu, sem einnig voru fyrstir til að tileinka sér ritmál og notuðu til þess fleygrúnir. Elsta hjól sem fundist hefur á þessum slóðum er um 5.500 ára gamalt.
Ef horft er á hjól, býst maður við hreyfingu. Hjól sem ekki snýst hefur hvorki upphaf né endi. Um leið og hjólið snýst fer atburðarásin af stað oftast áfram, en sjaldnar afturábak. Hjól sem ekki snýst táknar kyrrstöðu.
Ritari þessa lína hafði lengi gengið fram hjá táknrænu hjóli kirkjuklukkunnar sem um árabil hafði verið í kyrrstöðu eins og áður hefur verið getið um hér í pistli. Leiddar voru líkur að því að kyrrstaða þessa hjóls væri ástæða þess að í samfélagi okkar ríkti einnig kyrrstaða og doði. Hjól samfélagsins voru einnig í kyrrstöðu, þökk sé hruninu mikla og löngu fyrr. Það þótti því brýnt verkefni að koma klukkuhjólinu á snúning aftur, ef hér ætti ekki að ríkja kyrrstaða áfram.
Það var því leitað til Rótaryklúbbs Keflavíkur um stuðning fyrir verkefnið.
Hugmyndafræði Rótary byggir á ríflega 100 ára gamalli hugsjón eins manns, Paul Harris, sem vildi safna saman ólíkum starfstéttum til að deila reynslu sinni hverri fyrir annarri um leið og þær tækju þátt í samfélagsverkefnum með það að markmiði að bæta umhverfið og heiminn allan. Fyrir tilstuðlan þessa félagsskapar hefur lömunarveiki verið nær útrýmt í heiminum.
Auðkenni (logo) rotarý síðan 1924 er hjólið, með 24 tönnum og 6 pílárum, tákn hreyfingar framávið. Í miðju hjólsins er skráargat, tákn velvilja og þjónustu við samfélagið.
Það kann að þykja tilviljunarkennt að 4 dögum eftir að kirkjuklukkan fór aftur að ganga lýsti Gylfi Zoega hagfræðingur því yfir í fjölmiðlum að hrunið væri á enda og hjólin aftur farin að snúast. Litlu vísarnir þrír sem til samans höfðu stöðvast á 666, tákni antikristusar fóru nú að þokast af stað aftur. Ekki löngu síðar var hafist handa við bygginu öldrunardeildar á Nesvöllum, bæjarstjóri taldi víst að álverið í Helguvík tæki fljótlega til starfa, árangur nemenda í grunnskólum á samræmdum prófum er til fyrirmyndar og nú er verið að reisa risa fiskeldisstöð úti í Höfnum. Kirkjan sem hýsir umræddar klukkur klæðist nú nýju slöri, endurskapað eftir upprunalegu útliti hennar.
Einnig það er merki þess að samfélagið hreyfist nú aftur í takt við úrverkið umtalaða.
Kannski þurfti aðeins að koma kirkjuklukkunni af stað aftur.
Konráð Lúðvíksson