Um rekstur Dvalarheimila á Suðurnesjum
Á aðalfundi DS þann 29. maí 2012 voru kynntir ársreikningar heimilanna Garðvangs og Hlévangs. Fram kom að rekstrarniðurstaða Garðvangs er neikvæð um rúmar 10 milljónir þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnsliða en rekstrarniðurstaða Hlévangs neikvæð um rúmar 2 milljónir.
Á fundinum spurði ég út í tæplega 17 milljóna króna hækkun á lífeyrisgreiðslum í ársreikningi Garðvangs. Hækkunin skipti miklu máli, án hennar hefði rekstrarniðurstaða Garðvangs verið jákvæð um 7 milljónir.
Ég fékk það svar að um væri að ræða ógreitt framlag í lífeyrissjóð vegna launa framkvæmdarstjóra. Þær upplýsingar sem ég fékk á fundinum skýrðu að mínu mati ekki málið. Ríkið hafði hafnað umræddum greiðslum, fjárhagsnefnd Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hafði hafnað beiðninni og stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hafði staðfest þá ákvörðun. Málið hafði verið kynnt í stjórn DS og hvergi kemur fram að greiðslan hafi verið samþykkt. Samt sem áður fór greiðslan fram og er bókfærð í ársreikningi Garðvangs.
Á fundinum kom fram hávær krafa um að sveitarfélögin á Suðurnesjum leggðu meira fé í rekstur dvalarheimilanna og til að leggja áherslu á mikilvægi þess tilkynnti framkvæmdarstjórinn fyrirhugaðar uppsagnir 6 starfsmanna. Í skýrslu Landlæknis um heimilin Garðvang og Hlévang kemur fram alvarleg staða í mönnun heimilanna og telur landlæknir að staðan sé það slæm að mönnun á heimilunum sé komin að þolmörkum. Jafnvel svo að öryggi íbúa kunni að vera stofnað í hættu vegna þess. Þrátt fyrir þetta boðar framkvæmdarstjóri enn uppsagnir og skerðingu á þjónustu. Ég hef gert athugasemdir við þá ákvörðun.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum vilja standa vel að uppbyggingu í öldrunarmálum. Mín skoðun er þó sú að ákvörðun um frekara fjármagn til heimilanna eigi að fresta þar til stefnumótun, endurskipulagning og framtíðarsýn liggur fyrir. Þeir sem bera ábyrgð á rekstri félaga sem rekin eru af opinberu fé þurfa að taka ábyrga afstöðu til mála sem þessara. Hluti af því er að spyrja sig um málsmeðferð og lögmæti þeirra greiðslna sem ársreikningar birta. Er lífeyriskrafa framkvæmdarstjórans lögmæt? Ef svo er hefði þá ekki átt að fara með hana sem lífeyrisskuldbindingu í ársreikningi? Hefði verið hægt að dreifa greiðslunni á lengri tíma? Hvernig fór greiðslan fram? Var um að ræða eingreiðslu til framkvæmdarstjórans? Var um að ræða eingreiðslu til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins? Var greiðslan í samræmi við sambærileg mál sem upp hafa komið? Hver samþykkti greiðsluna, hver framkvæmdi hana og hver hafði vitund um hana?
Ég vona að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum fái svör við þessum sjálfsögðu og eðlilegu spurningum. Þau svör komu því miður ekki fram á aðalfundi Dvalarheimilanna á Suðurnesjum.
Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum