Um flokkanna breytingar!
Eitt af töfraorðum hverrar kosningabaráttu er þetta boðandi orð „breytingar“. Í þessu orði liggur fyrirheit um eitthvað annað en er. Og þá væntanlega eitthvað annað og betra. Þess vegna er það lausnaroð stjórnmálaflokksins: breytingar.
En þá er að einu að hyggja, stjórnmálaflokkurinn hefur verið til staðar nokkuð lengi og oft lofað sömu breytingunum. Hann breytir samt fáu. Og helst engu. Nema því sem honum er sagt að breyta.
Hvað? Er þá ekki allt í lukkunnar velstandi? Breytir því sem honum er sagt að breyta? Geta kjósendur hugsað sér eitthvað betra? Abba babb! Stöldrum við.
Stjórnmálaflokkurinn breytir ekki því sem kjósandinn vill fá breytt; breytingar flokksins eru ekki breytingar fólksins heldur breytingar flokksins og eigenda flokksins. Síðan er látið að því liggja að hagsmunir flokks og fólks fari saman. Því fer oftast fjarri.
Flokkur beitti sér fyrir 90% húsnæðislánum og lét að því liggja að það væri fyrir fólkið. Það hljómaði þannig og var svo ljómandi fallegt og sanngjarnt í munni. Svona rétt á meðan auglýsingabæklingar flokks og banka voru prentaðir. Já – einmitt, flokks og banka. Þetta var nefnilega gert fyrir fjármálakerfið en ekki fyrir fólkið. Þú kannt restina af sögunni lesandi góður.
Flokkur lofaði því að losa fólkið við óþjál ríkisapparöt af því að fólkið gerði ekki nema borga með svoleiðis óværu. Flokkurinn boðaði frjálsræði og óheftan markað, allir mættu nú taka til hendi og fá eigin tækifæri í sínu fallega frjálsa landi. Fólk lét sér hlakka til að hafa val um allt milli himins og jarðar og á meðan fólkið hlakkaði til og klappaði saman lófunum gaf flokkurinn vinum sínum og eigendum gömlu ríkisfyrirtækin. Svo vaknaði fólkið upp úr vondum draumi eða áttaði sig á því, þegar það hætti að klappa, að flokkurinn hafði stolið af því fyrirtækjunum og svo fóru reikningar – öllu hærri en áður – að streyma frá vinum flokksins. Þú kannt sögulokin lesandi góður.
Og enn einn flokkur, lofaði breytingum; nú átti að heldur betur að bæta hag fólksins og ekki bara bæta hag þess heldur slá um það skjaldborg. Flokkurinn og fólkið átti samleið því flokkurinn gaf sig út fyrir að vilja jöfnuð og gott ef ekki líka bræðralag. Flokkurinn gerði slag í því að passa upp á fólkið sitt – eða hitt þó heldur. Hann leyfði nefnilega bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum að hirða húsin af fólkinu og bera 3 fjölskyldur út á Guð og gaddinn á hverjum degi en passaði um leið upp á það að vinir hans og eigendur gætu haldið öllum sínum fyrirtækjum. Sérstaklega passaði hann vel upp á alla þjófa sem áttu tryggingafélög og fjölmiðlasamsteypur – en samsteypurnar pössuðu upp á flokkinn og skrökvuðu að fólki í hans þágu upp á hvern dag. Líka að þér lesandi góður.
Þá er ótalin flokkur sem sagði hvorki meira né minna við fólkið en að hann ætlaði að passa sérstaklega vel upp á landið þess. Passa að fólkið mætti til eilífðarnóns eiga landið sitt og ráða sér sjálft – annað hvort væri nú. Fólkinu fannst þetta fallegt loforð og gat ekki neitað því að þarna hlyti að fara saman hagur fólks og flokks – því hvaða flokkur vill selja landið sitt? Jú – abba babb. Flokkurinn sem lofaði því að gera það ekki stuðlaði að því að svo yrði gert! –það eru þess flokks breytingar. Flokkurinn sá vildi fá að ráða – og passa vel upp á eigendur og styrktaraðila sína, þess vegna áræddi hann að selja landið sitt og fólkið sitt. Nú er það þitt lesandi góður og grípa inn í og skrifa sögulokin.
Það eru kosningar á morgun! Merktu X við J! Gegn innlimun Íslands í ESB! Kjóstu Regnbogann! Hugsaðu þinn gang og láttu þig dreyma um breytingar sem eru gerðar þín vegna en ekki vegna einhvers flokks. Hugsaðu þinn gang og láttu þig dreyma um breytingar sem kannski færa þér aftur eitthvað af því sem einu sinni var í stað þess að færa þér eitthvað sem enn er óþekkt en reynslan sýnir að verði ekki fyrir þig heldur ...
Þú veist hverja, lesandi góður!
Guðmundur S. Brynjólfsson,
rithöfundur og djákni, skipar 2. sæti Regnbogans í Suðurkjördæmi.