Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Tvöföldun Reykjanesbrautar flýtt
Miðvikudagur 20. apríl 2022 kl. 07:38

Tvöföldun Reykjanesbrautar flýtt

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs sveitarfélagsins þann 9. mars síðastliðinn og samþykkti þar með umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi vegna breikkunar Reykjanesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni. Búið er að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi, skipulagsferli er lokið og hönnun er á lokametrunum á vegakaflanum. Þessi hluti Reykjanesbrautarinnar er því á leið í útboð. Vegakaflinn skiptir okkur í Reykjanesbæ og íbúa Suðurnesja ekki síður máli en sá sem liggur frá Fitjum að Rósaselstorgi. Ánægjulegt er að segja frá því að sá hluti er einnig fjármagnaður í samgönguáætlun og eiga framkvæmdir að hefjast 2025. 

Framkvæmdum flýtt í nýrri samgönguáætlun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég held að okkur hafi öllum þótt algerlega óþolandi að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á þessum vegaköflum hafi ekki verið inni í samgönguáætlun með tryggðu fjármagni á sínum tíma. Sigurður Ingi Jóhannsson núverandi innviðaráðherra bætti úr því er hann tók við samgöngumálunum og förum við því loksins að sjá afraksturinn á næstu misserum. Ekki má gleyma að áður stóð til að klára framkvæmdina á 12-15 árum en henni hefur nú verið flýtt. Það er eðlilegt að undirbúningur og framkvæmd viðamikilla verkefna taki tíma og við höfum verið þolinmóð, stundum of þolinmóð. Við höfum séð Reykjanesbrautina verða sífellt öruggari umferðaræð á síðustu árum og því fagnaðarefni að tvöföldun á þeim köflum sem eftir eru séu nú í augnsýn. 

Tryggjum almennilegar tengingar 

Breytingarnar sem gerðar voru við Fitjar voru til mikilla bóta og taka mið af tvöfölduninni sem mun hefjast á næstu árum. Okkar hlutverk er að tryggja að tengingar milli Ásbrúarhverfis og Ásahverfis verði góðar auk þess að tengingar niður í stofnbrautir og önnur hverfi verði það líka. Við viljum að þeir ferðamenn sem koma til landsins eigi greiða leið í heimsókn til okkar og njóti þeirrar fjölbreyttu þjónustu sem við höfum upp á að bjóða. 

Báráttan fyrir bættu umferðaröryggi á Reykjanesbraut er baráttumál okkar allra og er listinn langur af því öfluga fólki sem hefur lagt málstaðnum lið. Saman gerum við gott samfélag enn betra! 

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir

Skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí nk.