Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tvöföldun Reykjanesbrautar boðin út; - en hvenær á að byrja?
Þriðjudagur 8. febrúar 2005 kl. 11:02

Tvöföldun Reykjanesbrautar boðin út; - en hvenær á að byrja?

Í gærkvöld var haldinn borgarafundur í Reykjanesbæ, um það brýna verkefni að ljúka við að tvöfalda Reykjanesbrautina. Ég var mættur þar fyrir hönd Frjálslynda flokksins, ásamt samþingflokksmönnum mínum þeim Guðjóni A. Kristjánssyni og Gunnari Örlygssyni. Grétar Mar Jónsson skipstjóri og varaþingmaður Frjálslynda flokksins var einnig á fundinum. Til viðbótar voru til staðar flestir, ef ekki allir, þingmenn Suðurkjördæmis, fyrrverandi þingmenn, varaþingmenn, fomaður Samgöngunefndar Alþingis og þrír ráðherrar!

Var hér ólíku saman að jafna og á síðasta borgarafundi um samgöngumál sem ég tók þátt í, en það var rúmlega 500 manna fundurinn sem haldinn var á dögunum úti í Vestmannaeyjum um samgöngumál Eyjanna. Af fólki með störf á Alþingi á starfsferilsskránni, voru þá bara mættir ég og Árni Johnsen. Í kvöld mættu bæði ég og hann eins og venjulega, en líka allir hinir. Gott hjá þeim og gleðilegt að áhugaleysið á málefnum Vestmannaeyja hefur ekki smitast yfir á Suðurnesin.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var að sjálfsögðu mættur með aðstoðarmanni sínum, ráðuneytisstjóra sínum og Vegamálastjóra. Sturla hóf fundinn með því að halda ræðu þar sem hann lýsti því yfir að það hefði kostað 1,1 milljarð að tvöfalda þann kafla Reykjanesbrautarinnar sem opnaður var í sumar. Restin að sunnan, eða réttara sagt vestanverðu, til Reykjanesbæjar er áætlað að kosti um tvo milljarða. Ráðherrann tilgreindi hins vegar ekki hvað það myndi sennilega kosta að tvöfalda brautina að austanverðu, að og í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog. Hins vegar lýsti hann því yfir að allt verkið yrði nú boðið út í vor í einu lagi og færi hraði framkvæmda eftir niðurstöðu útboðanna. Uppskar hann mikinn fögnuð fundarmanna fyrir það, enda sjálfsagt fagnaðarefni.

Hjá mér vöknuðu hins vegar ýmsar spurningar sem ég tilgreindi nánar í ræðum mínum á fundinum. Þegar ég gekk á Sturlu og spurði hvað hann meinti með "öllu verkinu", kom í ljós að hann átti við 10 kílómetra kaflann að vestanverðu til Reykjanesbæjar sem áætlað er að kosti um tvo milljarða. Ekki restina af Reykjanesbrautinni hinum megin við tvöfalda kaflann sem er í dag.

Aðspurður vildi Sturla hvergi tilgreina neinar dagsetningar varðandi verkið. Hvorki hvenær byrja ætti á því, né hvenær hann teldi að því yrði lokið. Hann talaði einnig mjög óskýrt um hvar hann ætlaði að finna fé í framkvæmdina, en nú er verið að ljúka við endurskoðun samgönguáætlunar þar sem talað er um að skera vegafé niður um sex milljarða á næstu þremur árum. Sturla sagði einungis að til væru "verulegir fjármunir" sem ætlaðir væru í Reykjanesbraut, en gat þegar ég spurði hann um upphæðir þess, hvergi nefnt neina tölu þar um.

Upp úr stóð að eina haldbæra niðurstaða þessa fundar er silfurlituð skófla sem afhent var samgönguráðherra af áhugamannahópi um tvöföldun Reykjanesbrautar og loforð ráðherrans um að bjóða verkið út í vor!

Nú gildir því að halda ráðherranum við efnið og sjá til þess að hann klári stafrófið, nú þegar hann er búinn að segja A.

Að hann drífi útboðið af, og sýni það og sanni í verki að peningarnir sem hann talaði um séu til, þannig að hafist verði handa við að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar til vesturs strax í sumar.

Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir Suðurnes að þessi framkvæmd sé kláruð. Fullnægjandi og öruggt vegasamband þessa svæðis við höfuðborgarsvæðið skiptir mjög miklu máli fyrir samkeppnishæfni þess inn í framtíðina, og þegar framkvæmdir við tvöföldun brautarinnar eru komnar jafn langt og raun ber vitni er það hrein fásinna að klára ekki verkið.

Það átti reyndar aldrei að hætta í sumar leið.

Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður Frjálslynda flokksins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024