Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Miðvikudagur 6. mars 2002 kl. 10:52

Tveir stóráfangar í umhverfismálum

Á síðustu dögum hafa unnist tveir stórsigrar í umhverfismálum í Reykjanesbæ. Annars vegar að taka í notkun fyrsta hluta af nýju frárennsliskerfi og hins vegar að losna við ljót og umhverfismengandi mannvirki á neðra nikkelsvæðinu.Skólpdælustöð og Njarðvíkurfitjar
Síðastliðinn föstudag tókum við bæjarbúar í notkun fyrsta hluta að nýju frárennsliskerfi fyrir Reykjanesbæ. Um er að ræða eitt stærsta einstaka verkefni þessa kjörtímabils og það langstærsta í umhverfismálum. Með þessari framkvæmd sem unnin var í góðri samvinnu við Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli er frárennslismálum fyrir stærstan hluta Njarðvíkurhverfis, Keflavíkurflugvöll og öll nýbyggingarhverfi við Grænás, Lágseylu og víðar komið í endanlegt og fullkomið horf. Á næsta kjörtímabili verður hafinn undirbúningur og væntanlega framkvæmdir við síðari hluta verkefnisins sem snýr að byggðinni í Keflavík.
Nú, þegar þessum framkvæmdum er lokið, getum við hafist handa við að gera Fitjarnar að skemmtilegu útivistarsvæði, með góðri tjörn, göngustígum og fuglalífi, sem geta orðið börnum og fullorðnum til ánægju og skemmtunar á næstu árum.
Fyrsti hluti framkvæmda á Fitjum verður boðinn út í apríl og framkvæmdir hefjast á vormánuðum. Verkið verður væntanlega unnið á næstu 2-3 árum. Ég mun síðar gera nánari grein fyrir þeim framkvæmdum.

Nikkelsvæðið
Til margra ára hefur það verið baráttumál bæjarbúa og sveitarstjórnarmanna í Keflavík, Njarðvík og síðar Reykjanesbæ að losna við tanka og önnur mannvirki af neðra nikkelsvæðinu og hefur Ellert Eiríksson bæjarstjóri unnið vel að því verkefni síðastliðinn 10-15 ár. Það var því stóráfangi þegar framkvæmdir hófust skömmu fyrir áramót. Nú hafa öll mannvirki sem voru bæði ofanjarðar og neðanjarðar verið fjarlægð og verið er að aka burtu menguðum jarðvegi. Í framhaldi af því hefjast vonandi viðræður við Utanríkisráðuneytið um að Reykjanesbær fái svæðið til afnota. Það er mikilvægt að geta þétt byggðina í beinni línu milli Efstaleitis og Gónhóls en þar er bæði verðmætt og gott byggingarland.
Mikilvægast af öllu er þó sú staðreynd að óhirt og illa umgengin mannvirki sem þarna voru eru nú farin og ekki lengur þyrnir í augum okkar bæjarbúa.

Böðvar Jónsson
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024