Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tveir góðir gjörningar sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ
Föstudagur 27. desember 2013 kl. 11:53

Tveir góðir gjörningar sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ

Það er ekki ekki oft sem ég drep niður penna til þess að hrósa sjálfstæðismönnum og því síður þeim sjálfstæðismönnum sem stjórnað hafa sveitarfélaginu Reykjanesbæ mörg undanfarin ár. 
Ég ætla hins vegar að gera það í þetta skiptið enda ærin ástæða til, ekki bara einföld heldur tvöföld.

Sjálfstæðismenn samþykktu nú á dögunum að selja hlutfé sveitarfélagsins í HS Veitum. Þrátt fyrir þessa sölu á bærinn enn meirihluta í fyrirtækinu.


Á sínum tíma, við uppskiptin á Hitaveitu Suðurnesja (í HS Orku og HS Veitur) eignaðist bærinn aukinn hlut í HS Veitum en lét í staðinn sinn í HS Orku. Þessu mótmæltum við sem þá sátum sem bæjarfulltrúar fyrir hönd A-listans í Reykjanesbæ. Við töldum það ekki gáfulegt að binda verulega fjármuni í fyrirtæki sem hefði þær skyldur einar að flytja heitt og kalt vatn í önnur sveitarfélög og láta í staðinn dýrmætan hlut í örkuöflunarfyrirtækinu HS Orku.


Það er auk þess ekki gáfulegt fyrir skuldsett sveitarfélag að binda fjármuni þar sem þeir koma að litu gagni. Þess vegna fagna ég því að sjálfstæðismenn hafi að lokum áttað sig á  þessu og nýti nú þessa fjármuni þar sem þeir koma íbúum Reykjanesbæjar betur að gagni.

Þá hefur það einnig verið samþykkt að falla frá boðuðum gjaldskrárbreytingum hér í Reykjanesbæ. Þann 15. nóvember sl. skrifaði ég grein á vef Víkurfrétta og hvatti sveitarfélög á Suðurnesjum til þess að falla frá boðuðum gjaldskrárbreytingum.


Reykjavíkurborg hafði þá orðið við slíkri áskorun með það að markmiði að auðvelda kjarasamningsgerð sem hefði í för með sér aukinn stöðugleika og möguleika á vaxandi kaupmætti.  Nú hefur Reykjanesbær orðið við þessari áskorun og fyrir það ber að þakka og geri ég það hér með.

Íbúum Suðurnesja vil ég óska farsældar á nýju ári.

Guðbrandur Einarsson
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024