Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Traustið endurheimt
Mánudagur 2. mars 2009 kl. 10:25

Traustið endurheimt

Öllum ætti að vera ljóst að rof hefur orðið á milli stjórnvalda og almennings. Stjórnvöld njóta ekki trausts almennings. Það efnahagslega óveður, sem yfir okkur hefur gengið, hefur að stórum hluta skapað þetta traustsrof. Fólk vantreystir því sem stjórnvöld halda fram enda töluðu þau um að kerfið væri öruggt allt fram á síðasta dag. Upplifun okkar er því sú að okkur hafi ekki verið sagt rétt og satt frá – að við höfum verið blekkt. Til þess að geta endurreist íslenskt efnahagslíf verða stjórnvöld og stofnanir þeirra að endurheimta traust almennings. Það ferli er nú hafið með endurskipulagninu á yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Einnig hefur verið boðað til kosninga þar sem stjórnmálamenn leita eftir endurnýjuðu eða nýju umboði frá kjósendum. Kosningarnar eru mikilvægar í því ferli að endurheimta traust kjósenda á stjórnvöldum.

Hvar sem ég hitti fólk á ferðum mínum um kjördæmið upplifi ég vantraust þess á stjórnvöldum. Fólk vill sjá breytingar. Það vill gegnsæ og heiðarleg vinnubrögð. Að skapa stjórnvöldum - og að endurheimta virðingu Alþingis – verður höfuðverkefni stjórnmálamanna á næsta kjörtímabili. Það verður aðeins gert með breyttum áherslum og nýjum vinnubrögðum. Fyrir því vil ég berjast.


Hæfasta fólkið

Ný og breytt vinnubrögð eiga að tryggja það að við ráðum alltaf hæfasta fólkið til starfa í mikilvæg störf á vegum ríkisins. Við verðum að láta af þeim ósið að eftirláta flokksgæðingum stöður, þar sem augljóst er að aðrar forsendur - en pólitískar - verða að vera til staðar, til þess að vel takist til. Augljóst dæmi um þetta er staða formanns bankastjórnar Seðlabankans. Vinnubrögð, þar sem faglegar kröfur eru látnar víkja á kostnað pólitískra vinargreiða, eru ein af ástæðum þess að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar er eins og raun ber vitni. Við höfum ekki gert nógu miklar faglegar kröfur til manna, sem ætlað er að vinna mikilvæg störf í þágu almennings. Kjósendur eiga heimtingu á því að alltaf sé valið hæfasta fólkið.

Pólitísk spilling í embættisveitingum er hluti af stjórnmálum gærdagsins – pólitík Sjálfstæðisflokksins - og þeim þarf að henda út úr íslenskum stjórnmálum hið snarasta. Fyrir því vil ég berjast og býð þess vegna fram krafta mína í 2. – 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Árni Rúnar Þorvaldsson
Formaður bæjarráðs Hornafjarðar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024