Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tónlist er æði!
Föstudagur 6. september 2024 kl. 06:08

Tónlist er æði!

Að læra á hljóðfæri er meira en bara að læra að spila á hljóðfæri eða lesa nótur. Hún er umbreytandi reynsla og upplifun sem býður upp á fjölmarga kosti fyrir einstaklinga á öllum aldri. Með því að læra tónlist og öðlast færni á hljóðfæri eflist vitsmunalegur, félagslegur og tilfinningalegur þroski, sem og hæfileiki til sköpunar. Þessir kostir eru ómissandi hluti af góðri og heildstæðri menntun sem nær langt út fyrir tónlistarskólann.

Einn af stærstu kostum tónlistarnáms er jákvæð áhrif hennar á vitsmunalegan þroska. Að læra og iðka tónlist örvar ótal marga og mismunandi hluta heilans og eykur hæfni eins og minni, athygli og rúmfræðilega rökhugsun. Rannsóknir hafa sýnt að nemendur sem læra á hljóðfæri standa sig oft á tíðum betur í námsgreinum t.d. stærðfræði og tungumálum. Ástæðan er að tónlist krefst notkunar á mynstrum, hryn, talningu og skilningi á flóknum uppbyggingum sem hefur bein áhrif á nám á fjölmörgum öðrum sviðum (National Association for Music Education, 2014). Að auki hjálpar tónlistarnám við að bæta t.d. stjórnunarhæfni, eykur hæfni til úrlausnar flókinna verkefna og vandamála, eflir gagnrýna hugsun sem og tímastjórnun, sem allt eru lykilatriði til að ná góðum námsárangri og árangri í lífinu almennt (Schellenberg, 2004).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félagslega gegnir tónlistarkennsla einnig mikilvægu hlutverki. Þátttaka í hóptónlistarstarfi, eins og hljómsveitum og kórum, kennir nemendum mikilvægi samvinnu og samstarfs. Þessi reynsla hjálpar nemendum að þróa með sér samkennd þar sem þeir læra að hlusta á aðra og vinna saman að sameiginlegu markmiði. Tónlist sameinar. Að auki styrkir það sjálfstraust þeirra að koma fram fyrir framan áhorfendur, sem er mikilvægt á svo mörgum mismunandi sviðum lífsins (Welch o.fl., 2006).

Tilfinningalega séð býður tónlistarkennsla upp á einstaka leið til tjáningar og streitulosunar. Tónlist gerir einstaklingum kleift að kanna og tjá tilfinningar sínar á öruggan og uppbyggilegan máta. Þessi tilfinningalega þátttaka getur verið sérstaklega mikilvæg fyrir börn og unglinga, sem oft upplifa mikla tilfinningalega spennu. Með því að læra að tjá sig í gegnum tónlist geta nemendur öðlast betri skilning á og stjórnað betur tilfinningum sínum. Það leiðir til betri andlegrar heilsu og vellíðan (Hanna-Pladdy & Mackay, 2011).

Sköpun er einnig lykilatriði þegar tónlistarkennsla heppnast vel. Í skapandi tónlistarumhverfi fá  nemendur tækifæri til að hugsa út fyrir kassann, prófa mismunandi hugmyndir og taka áhættu í umhverfi þar sem þeim er veittur öruggur, uppbyggjandi og faglegur stuðningur. Skapandi hugarfar eykur ekki aðeins listræna hæfileika heldur kemur einnig fram í nýsköpun á öðrum sviðum lífsins, allt frá úrlausnum krefjandi verkefna á vísindasviðum til skapandi skrifa (Hallam, 2010).

Einnig má geta að sýnt hefur verið fram á að tónlistarnám hefur veruleg jákvæð og fyrirbyggjandi áhrif á áfengis- og tóbaksnotkun unglinga (Einarsson o.fl., 2004).

Fjárfesting í tónlistarkennslu snýst ekki bara um að kenna á hljóðfæri og búa til tónlistarfólk. Hún snýst um að móta vel þroskaða, hæfa einstaklinga sem eru betur undirbúnir til að takast á við áskoranir lífsins.

Fyrir áhugasama þá fylgja hér tilvísanir í rannsóknir og greinar sem ég studdist við:

Dr. Ágúst. H.Í. Einarsson, (2004) Hagræn áhrif tónlistar 3.8 bls. 71–72

Hallam, S. (2010). The Power of Music: Its Impact on the Intellectual, Social and Personal Development of Children and Young People. - International Journal of Music Education -, 28(3), bls. 269–289.

Hanna-Pladdy, B., & Mackay, A. (2011). The Relation Between Instrumental Musical Activity and Cognitive Aging. – Neuropsychology -, 25(3), bls.378–386.

National Association for Music Education. (2014). Music Education and Academic Achievement. - Schellenberg, E. G. (2004). Music Lessons Enhance IQ.  - Psychological Science -, 15(8), bls.511–514.

Welch, G., Ockelford, A., & Zimmermann, S. A. (2006). Provision of Music in Special Education - Institute of Education, University of London -.

Halldór Lárusson,
tónlistarmaður og skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis