Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tíu ástæður fyrir álveri í Helguvík
Fimmtudagur 12. janúar 2006 kl. 16:52

Tíu ástæður fyrir álveri í Helguvík

Century Aluminium sem rekur Norðurál á Grundartanga vinnur nú með Reykjanesbæ og Hitaveitu Suðurnesja að undirbúningi 250 þúsund tonna álvers í Helguvík. Century vill byrja framkvæmdir 2008 og hefja rekstur 2010. Líklegt er að byrjað verði með um 130 þúsund tonna álver sem er aðeins þriðjungur af stærð álversins á Austfjörðum, en skilar samt gríðarlegu afli inn í samfélag okkar hér á Suðurnesjum. Mjög gott samstarf er á milli Reykjanesbæjar, Hitaveitu Suðurnesja og Century um verkefnið og undirbúningsvinna í fullum gangi. Ekki þarf að fjölyrða um að auðvitað verður tryggt að öllum umhverfisskilyrðum verði fullnægt. Þær kannanir sem hafa verið gerðar líta mjög vel út og því er áhugi Century manna svona mikill. Þeir telja óefað að Helguvík sé besta staðsetning fyrir álver á landinu, höfnin til, landsvæði nægt, gott bakland í þjónustu og hentugt rými frá íbúabyggð. Það er kominn tími til að viðskiptasjónarmið fái að ráða vali á staðsetningu fyrir stórtækan iðnað á borð við álver í Helguvík.

Hér eru tíu skýrar ástæður þess að álver rísi í Helguvík:
1. Orkan til álversins í Helguvík yrði umhverfisvæn orka sem Hitaveita Suðurnesja áamt samstarfsaðilum útvegar með jarðgufuvirkjunum.
2. Um 90% af allri raforkuframleiðslu á Íslandi kemur frá Suðurkjördæmi og því er ekki vafamál að það er sanngjarnt að þessi fyrsta stóriðja í kjördæminu sem þarf mikla orku, verði byggð í nágrenni stærsta bæjarfélagsins.
3. Nýjustu rannsóknir benda til að auk umhverfisvænnar orku til álversins verði öllum umhverfis- og mengunarskilyrðum fullnægt við rekstur sjálfs álversins. Stærð Helguvíkursvæðisins gefur færi á því og Garðmenn hafa lýst yfir vilja til góðs samstarfs ef álverið þarf að teygja sig til norður fyrir Helguvík, inn á þeirra landsvæði.
5. Álverið í Helguvík myndi skapa 400 störf í álverinu sjálfu, m.v. 250 þúsund tonna álver og tvöfalt fleiri störf í kringum það. Ekki þarf að fjölyrða um þau jákvæðu áhrif sem það skapar fyrir bæjarsjóð okkar og öflugra viðskiptalíf sem þetta kallar á.
6. Álverið myndi skapa stórauknar tekjur hafnarinnar af hafnargjöldum. Mörg hundruð þúsund tonn af efni þarf að flytja til landsins til að flytja út 250 þúsund tonn af áli. Á 15-20 árum gæti Helguvík greitt upp allar skuldir sínar, sem bæjarsjóður ber nú ábyrgð á.
7. Sterkt fyrirtæki eins og Century sem staðsett væri í Reykjanesbæ myndi að sjálfsögðu styðja við skóla- íþrótta- og menningarstarf í bænum.
8. Hitaveita Suðurnesja myndi styrkjast gríðarlega við sölu á orku til álversins og fleiri heimila. Reykjanesbær á tæp 40% eignarhlut í HS og styrktist því efnahagur okkar samhliða.
9. Í dag er næg atvinna en við þurfum að byggja í haginn fyrir framtíðina. Margt er enn óljóst með veru Varnarliðsins og þótt nú styttist óðum tímalengd á milli Reykjaensbæjar og Reykjavíkur er mikilvægt að hér séu vel vel launuð og traust atvinnutækifæri.
10. Álver í Helguvík þarf ekki að útiloka álver annars staðar á landinu. Umhverfisvæn orka og nútímatækni skila heiminum mun hreinni álverum hér á landi en myndi gerast með því að leyfa kola- olíu eða kjarnorkuknúin álver annars staðar í heiminum, ekki síst með jarðgufuvirkjunum sem skemma ekki umhverfi sitt. Ef næg umhverfisvæn orka fæst og öllum umhverfisskilyrðum er fullnægt og við það bætist reynsla og þekking Árna Sigfússonar bæjarstjóra og Júlíusar Jónssonar forstjóra Hitaveitunnar verður Century Aluminium ekkert að vanbúnaði að klára verkefnið.

Þorsteinn Erlingsson, skipstjóri og bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024