Tími umkenningarleiksins er liðinn
Ómerkileg og yfirborðskennd er sú umræða sem á sér stað þessa dagana um ábyrgð núverandi ríkisstjórnar á atvinnumálum á Suðurnesjum. 140 störf hafi tapast, og látið að því liggja að ástæðunnar sé að leita í heimsókn ríkistjórnarinnar til Suðurnesja. Þetta er álíka sanngjarnt og að segja að rúmlega 1000 störf hafi tapast sökum heimsóknar og sparirúnts bæjarstjórans með forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir tæpum áratug. Tölurnar haldast í hendur.
Umkenningarleiknum er haldið áfram á sama tíma og teikn eru á lofti um að tekið sé að rofa til. 80, störf eru að skapast hjá Iceland Express og Kísilverksmiðjan að sögn að fara á fullt. Framundan er eitt stærsta ferðasumar Íslandsögunnar og í stað þess hjálpast að við að nýta tækifærin virðist vilji helst ráðamanna vera að grafa enn eina holuna fyrir skotgrafahernað sem engu skilar.
Hvar eru á móti þakkirnar frá þeim sem hæst berja lóminn um hina vondu ríkisstjórn en algóða bæjarstjóra fyrir kísilverksmiðjuna og þrautseigjuna við að leita allra leiða við að álver í Helguvík verði að veruleika? Ekki orðið var við það og líkast til undirstrikar það flokkspólitískan tilgang áróðursins og umkenninganna.
Þrátt fyrir að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafi selt frá sér yfirráðin yfir HS-orku og auðlindum Reykjanesskagans og þar með forræðið yfir orkusölu félagsins er þetta allt öðrum að kenna að ekki hafi gengið hraðar að byggja upp. Það var sú auðlindasala sem tefldi í tvísýnu áætlunum um álver Norðuráls í Helguvík. Ekkert sem ríkisvaldið gerði dró úr því verkefni máttinn.
Þrátt fyrir þessa dæmalausu aðgerð keppast einstakir þingmenn á borð við 1. þingmann kjördæmisins við að þrýsta á Landsvirkjun og lífeyrissjóði að bjarga álversbyggingunni sem eins og við öll vitum myndi svo gott sem þurrka út ömurlegt atvinnuleysið sem hefur grúft sig yfir samfélagið okkar frá því að herinn fór fyrir fimm árum. Þökkum þeim þrautseigjuna í stað þess að leita sökudólga fyrir þessu og hinu. Stöndum saman um að rífa okkur upp úr þessu.
Þegar erfiðleikar steðja að er það samstaðan sem gildir. Þá verða menn að horfa til stöðunnar eins og hún er, en ekki leita blóraböggla sem allra víðast. Ný framlagðir ársreikningar Reykjanesbæjar sýna okkur svo ekki verður um villst að nú er tími samstöðunnar. Hagnaður af rekstri bæjarins er samkvæmt ársreikningi 639.milljónir, en ógreiddar skammtímaskuldir um síðustu áramót 1,6 milljarður króna. Það vantar greinilega meiri pening í galtóman bæjarsjóðinn.
Bygging Hjúkrunarheimils í Reykjanesbæ er eitt þeirra verkefna sem bæði gæti skapað störf og tekjur til bæjarsjóðs. Við eigum valið en virðumst einhverra hluta vegna hika við að nýta það. Fjárveitingin er fyrir hendi frá þeirri sömu ríkistjórn og sökuð er um að halda hér öllu í heljargreipum. Uppbygging arðbærra atvinnuverkefna geta ekki talist vera bruðl. En sú verður að vera í réttri röð, og í takt við fjárhagsgetu bæjarsjóðs. Á það hefur skort, en nú er tækifærið til að snúa því við. Öfugt við höfnina er það ríkið sem greiðir 85% kostnaðar af uppbyggingu hjúkrunarheimilsins, og það er bæjaryfirvalda að nýta það fé á sem skynsamlegastan hátt. Vonum að sú verði raunin,
Við höfum nú í næstum þrjú ár tekist á við afleiðingar kreppu. Kreppu sem varð sökum gengdarlausar græðgi og einkavinavæðingar á fjöreggjum þjóðarinnar. Það er varla til sá maður eða fjölskylda sem ekki hefur orðið fyrir barðinu á kreppunni á einhvern hátt. Og því lengur sem bölmóðurinn varir verður erfiðara að hefja sig upp úr þeim hjólförum stöðnunar sem kreppan hefur valdið.
Við getum tekist endalaust á um grunnskoðanir okkar í pólitík, en verðum þó að gæta þess að það sem út úr þeirri umræðu kemur verði samfélagi okkar til góðs. Að sætta megi sjónarmið þannig að allir megi njóta lifgæðanna á sanngjarnan hátt. Að enginn þurfi stöðu sinnar vegna að líða þann skort og óöryggi sem kreppan hefur kallað yfir okkur. Tími umkenningarleiksins er liðinn og tími til að takast á við þau vandamál sem við blasa. Það verðum við að gera saman ef árangur á að nást.
Með sumarkveðju
Hannes Friðriksson