Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tímamóti í menntun á Suðurnesjum
Mánudagur 21. júní 2004 kl. 12:26

Tímamóti í menntun á Suðurnesjum

Þann 17. júní 2004 var merkisdagur fyrir Suðurnesjamenn en þá var haldin fyrsta háskólahátíðin á svæðinu. 17 nemendur voru útskrifaðir úr hjúkrunar- og viðskiptafræði.
Þessir nemendur hafa stundað nám sitt við Háskólann á Akureyri í gegnum fjarfundabúnað hjá Miðstöð símenntunar og haft þar námsaðstöðu.

Fjárnám hjá Miðstöð símenntunar
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum á sér breiðan bakgrunn í samfélaginu hér fyrir sunnan en það voru stéttarfélög, menntarstofnanir, atvinnurekendur á svæðinu ásamt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum sem stofnuðu Miðstöðina árið 1997. Fjarnám á háskólastigi hefur verið hluti af starfssemi Miðstöðvarinnar frá upphafi. Haustið 1998 var farið af stað með tilraunaverkefni um fjarnám frá Háskóla Íslands í samvinnu við Markaðs- og atvinnuskrifstofu Reykjanesbæjar. Átta nemendur hófu nám við Háskóla Íslands í Ferðamálafræði í gegnum fjarfundabúnað sem staðsettur var í Kjarna. Í tvö ár sóttu einstaklingar tíma í einstökum fögum bæði í íslensku og ferðamálafræðum.

Það urðu ákveðin tímamót haustið 2000 þegar kennsla hófst frá Háskólanum á Akureyri í fjarfundabúnaði til Suðurnesja í hjúkrunar- og viðskiptafræði. Þarna gafst nýr valkostur í háskólamenntun fyrir einstaklinga sem vildu búa áfram á Suðurnesjum og höfðu etv. ekki greiðan aðgang til að stunda nám á öðrum stöðum. Þar með voru fleiri einstaklingar sem fengu tækifæri til að mennta sig án þess að flytja úr bæjarfélaginu eða ferðast nokkra klukkutíma á dag til að sækja skóla. Einnig gafst tækifæri fyrir einstaklinga að stunda háskólanám jafnhliða vinnu. Jafnfram því sem fjarnámið hófst fluttist Miðstöðin í gamla barnaskólann í Reykjanesbæ og fengu háskólanemarnir þar góða námsaðstöðu. Fyrirtæki á svæðinu tóku virkan þátt í uppbyggingu háskólanámsins og gáfu myndarlegar gjafir sem hafa nýst nemendum vel í náminu. Óhætt er að segja að án velvildar þessarra aðila hefði verið erfitt og etv. ekki hægt að fara af stað með fjarnámið. Þessi fyrirtæki eiga hrós skilið fyrir að styðja við eflingu háskólanáms á svæðinu. Án samvinnu margra aðila s.s. Háskólans, bæjarfélaga, Miðstöðvarinnar og fyrirtækja hefði ekki verið hægt að fara af stað með fjarnámið. Suðurnesjabúar geta verið stoltir af því þeirri samstöðu sem skapaðist við að koma fjarnáminu á og hvernig til hefur tekist. 

Fjöldi nemenda og deildir
Árið 2000 voru 36 nemendur sem hófu nám í hjúkrunar- og rekstrarfræði í gegnum fjarfundabúnað Miðstöðvarinnar. Nemendum sem stunda nám í fjarfundabúnaði hjá Miðstöðinni hefur fjölgað og í viðbót við fyrrnefndar greinar hafa verið teknir inn nemendur í grunnskólakennarann, leikskólakennarann og í auðlindadeild. Á síðustu önn stunduðu um 70 nemendur fjarnám hjá Miðstöðinni.

Næstu ár
Gert er ráð fyrir að nýjir hópar hefji nám í haust á leikskólabraut og í viðskiptafræði. Samkvæmt samningi við Háskólann á Akureyri er gert ráð fyrir að hjúkrunarnám muni hefjast að nýju haustið 2005 ef nægur fjöldi næst.   Fjölmargir háskólar eru farnir að bjóða upp á fjarnám og ætti því að vera hægt að auka framboð á  háskólakennslu hér syðra á næstu árum.

Það er og verður eitt af verkefnum Miðstöðvarinnar að hvetja og skapa aðstöðu til að sem flestir geti farið aftur í nám. Það hefur sýnt sig að aðstaða skiptir máli þegar hugað er að námi og er nauðsynlegt að hlúa vel að henni. Þar er ekki hægt að slá slöku við. Nú fjórum árum eftir að fjarnámið byrjaði í núverandi húsnæði er tækjabúnaður að ganga sitt síðasta skeið. Mikilvægt er að Miðstöðinni sé gert kleift að endurnýja búnað eftir því sem tækninni fleygir fram. Því er afar brýnt að allir aðilar hvort sem eru stjórnvöld, menntastofnanir, bæjarfélög eða fyrirtæki haldi áfram að styðja við bakið á fjarnáminu og auka þannig möguleika íbúanna á því að mennta sig. Takmark okkar allra er að hækka menntunarstig hér á Suðurnesjum og með samstilltu átaki mun það takast.

Guðjónína Sæmundsdóttir,
forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024