Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tilræðið við opna umræðu!
Föstudagur 20. nóvember 2009 kl. 13:56

Tilræðið við opna umræðu!

Allt virðist mega kallast tilræði þegar kemur að opinni umræðu um fjármál Reykjanesbæjar. Böðvar Jónsson hef ég löngum virt mikið fyrir hans góðu verk í þágu Reykjanesbæjar, og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir, en ég skil hins vegar ekki fyrir mitt litla líf hvernig stendur á hans miklu viðkvæmni í garð bæjarstjórans.


Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, rétt eins og aðrar opinberar persónur, hlýtur að höndla það þegar deilt er á hans verk eða hans orð. Þegar ég las greinina Tilræðið við Árna Sigfússon! kom bókin Grjótaþorpið fyrst upp í huga minn og óttaðist ég það helst að Guðbrandur yrði nú gerður að steini.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Það má alveg benda á þá staðreynd að sveitarfélagið okkar stendur afar illa fjárhagslega og það er ekki hægt að afsaka sig eftir á með þeirri staðreynd að Reykjanesbær sé láglaunasvæði, Reykjanesbær var ekki síður láglaunasvæði þegar brjálæðið hófst!


Framkvæmdagleðin hefur ekki farið framhjá neinum á undanförnum árum. Hér eru komin ótal hálfbyggð og óbyggð hverfi sem þó eru malbikuð og upplýst eins og þar búi þúsundir, það hefði kannski mátt hinkra aðeins og sjá hvað byggðist...


Uppbyggingin og fegrunin er sannarlega af hinu góða en það verður að vera til innistæða fyrir henni. Þar gildir sama reglan og heima hjá mér, maður sníður sér stakk eftir vexti. Mér þætti ég aldeilis flottur ef ég ætti 400 m2 einbýlishús og glænýjan Range Rover í hlaðinu en ég hef ekki efni á því, og sama gildir með Reykjanesbæ. Mér þætti ekkert verra að búa í Reykjanesbæ ef Hljómahöllin hefði aldrei komið til... en lúkkið virðist ráða.


Svona rétt í lokin langar mig að óska Reykjanesbæ til hamingju með það frábæra forvarnarstarf sem unnið hefur verið sl. 10 ár en í skýrslu sem birt var í sumar um hagi og líðan grunnskólanema í Reykjanesbæ kemur m.a. fram að ölvunardrykkja hefur farið úr 51% niður í 13% á þeim árum sem liðið hafa síðan ég kvaddi grunnskólann. Þetta kalla ég stórkostlegan árangur!


Hjörtur M Guðbjartsson

Fulltrúi A-listans í Atvinnu- & hafnaráði