Tillaga um óháða rannsóknarnefnd í Reykjanesbæ felld
Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ þriðjudaginn 21. september felldu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillögu bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar þess efnis að skipa skyldi óháða nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að gera úttekt á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar - þau Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson - bókuðu eftirfarandi:
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum, þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Umræður í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa því miður á undanförnum árum einkennst um of af kappræðum og átökum. Þessu þarf að breyta og efla góða rökræðu því mikilvægt er að bæjarstjórn gegni hlutverki sínu sem vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta af ábyrgð.
Bæjarfulltrúum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum og brýnt er að þeim takist að viðhalda trausti bæjarbúa með orðum sínum og athöfnum. Leggja þarf meiri áherslu á sjálfstæði bæjarstjórnar gagnvart framkvæmdavaldinu hér í bæ og auka fagmennsku þess á öllum sviðum.
Samfylkingin í Reykjanesbæ telur fulla ástæðu til að taka alvarlega umfjöllun fjölmiðla ofl. um siðferði og stjórnhætti í Reykjanesbæ og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni. Bæjarfulltrúar þurfa að setja sér siðareglur sem stuðli að bættri stjórnsýslu og koma í veg fyrir hagsmunatengsl. Því miður hefur skipan í nefndir og ráð hjá Reykjanesbæ ekki fylgt þessari meginreglu.
Vegna smæðar samfélagsins okkar skiptir gegnsæi enn meira máli en í stærri samfélögum og því vönduð stjórnsýsla sérlega mikilvæg. Nauðsynlegt er að gera faglega úttekt á því sem aflaga hefur farið í okkar samfélagi. Það á ekki að ríkja neinn efi um heilindi starfsmanna og bæjarfulltrúa bæjarins.
Ábyrgð okkar er mikil, við erum fulltrúar bæjarbúa sem treysta okkur fyrir sínu bæjarfélagi og því mikilvægt að við rísum undir því hlutverki og séum tilbúin að axla þá ábyrgð að breyta stefnu okkar í samræmi við stöðu efnahagslífsins á hverjum tíma. Viljinn til að efna kosningaloforð má ekki verða skynseminni yfirsterkari.
Okkur ætti öllum að vera ljóst að fjármál Reykjanesbæjar eru í ólestri, eyðsla verið um efni fram og nú er komið að skuldadögum. Hættum að kenna öðrum um okkar vandamál.Við verðum núna að axla ábyrgð og bæta okkar stjórnsýslu, setja deilumál til hliðar og í þann farveg sem nauðsynlegur er til að skapa þá framtíð sem okkur ber.
Til að halda áfram er nauðsynlegt að skoða það sem aflaga hefur farið í okkar stjórnsýslu, þannig og aðeins þannig verðum við tilbúin til að takast á við þau vandamál sem við blasa.
Hreinsum borðið.
Tillagan sem felld var:
Samfylkingin í Reykjanesbæ leggur til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjanesbæjar.
Nefndin fái fullan aðgang að skjalasafni Reykjanesbæjar og öllum gögnum er varða stjórnsýslu bæjarins. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.
Nefndin leggi fram starfsáætlun fyrir 01.nóvember 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar.
Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 01.apríl 2011. Bæjarráð ákveður þóknun nefndarinnar.
Aðalverkefni nefndarinnar verði:
- Að kanna stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.
- Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
- Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins.
- Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa.
- Að kanna hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við bæinn.
- Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarins eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.
Friðjón Einarsson, Guðný Kristjánsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson
[Tilkynning frá Samfylkingunni í Reykjanesbæ]