Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Tilbúinn að leggja sitt að mörkum til hagsbóta fyrir Suðurnesjamenn
Miðvikudagur 18. október 2017 kl. 06:00

Tilbúinn að leggja sitt að mörkum til hagsbóta fyrir Suðurnesjamenn

Undirritaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum og skipa ég efsta sæti á lista flokks Fólksins í kjördæminu.

Þar sem ég er nýr í pólitíkinni liggur beinast fyrir að kynna sig. Ég er lögfræðingur og hef verið formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis í nær 20 ár. Ég hef víða unnið og búið í Suðurkjördæmi. Um tíma starfaði ég í sýslumannsembættinu hér í Keflavík og síðar á Selfossi en lengst af var ég sýslumaður í Vestmannaeyjum og tel mig þekkja töluvert til um hvað mæðir á í kjördæminu og vil þar nefna samgöngur, ferðaþjónustu, sjúkraþjónustu og atvinnufyrirtækin. Þannig brenn ég í skinninu til að fá að takast á við að sinna því sem þarf að færa til betri vegar.
Ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til hagsbóta fyrir Suðurnesjamenn, Suðurkjördæmi í heild og allt landið, ef ég næ kjöri inn á alþingi okkar Íslendinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sjúkrahúsþjónusta fyrir íbúa víða úti á landi, sem og hér í Reykjanesbæ er til mikillar skammar og ótækt að sækja þurfi þessa þjónustu að miklu leyti til Reykjavíkur með tilheyrandi óþægindum og áhættu fyrir íbúana.

Samgöngumálin eru batnandi en þó þarf að klára þessa hættulegu vegakafla á Reykjanesbraut sem enn eru einbreiðir og svo ég tali nú ekki um Grindavíkurveginn.

Ferðaþjónustan er bjargvættur þjóðarinnar og þarf að tryggja að rekstrargrundvelli hennar sé ekki kollvarpað með misvitrum ákvörðunum. Sama má segja um aðbúnað í kringum ferðamannastaði, sem eru mörgum árum á eftir fjölda ferðamanna, og í raun umhverfismál að lagfæra.

Óstöðugleiki hefur einkennt umhverfi sjávarútvegsins. Þar þarf að koma á festu í lagaumgjörð, en útgerðarfyrirtækjunum ber að greiða sanngjarnt og eðlilegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni til samfélagsins.

Flokkur fólksins er almennt með á stefnuskrá sinni að bæta kjör verkafólks, lífeyris- og öryrkja, því þeir hafa sannarlega ekki fengið sinn skerf að hagvexti umliðinna ára. Þetta hyggjumst við gera með því t.d. að hækka skattleysismörk stórlega.

Auðug þjóð á að hafa efni á að veita öllum sómasamlegt lífviðurværi.

Bestu kveðjur.
X – F
Karl Gauti Hjaltason,
oddviti F listans í Suðurkjördæmi