Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Til hvers eru stjórnmálamenn?
Miðvikudagur 26. október 2016 kl. 06:00

Til hvers eru stjórnmálamenn?

Aðsend grein frá Páli Val Björnssyni

Að mínu mati hafa stjórnmálamenn það eina hlutverk og þá einu skyldu að gera það sem í þeirra valdi stendur til að bæta lífsgæði fólks í nútíð og framtíð og að tryggja því sem jöfnust tækifæri. Ég er sannfærður um að þjóðfélag þar sem sátt er um það meginmarkmið að tryggja fólki og fyrirtækjum sem jöfnust tækifæri tryggir líka almenna velmegun, frelsi, framtak og sanngirni og stuðlar þannig að stórbættum lífsgæðum og hamingju alls almennings.

Við sem störfum í Bjartri framtíð viljum skipuleggja þjóðfélagið þannig að allir landsmenn hafi jöfn tækifæri til að nýta margbreytilega hæfileika sína sjálfum sér og okkur öllum til framdráttar. Við leggjum áherslu á að allt þetta sé gert í fullkominni sátt við náttúruna og umhverfið, með sjálfbærni og ábyrgð og langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Við viljum leggja okkar af mörkum við að byggja hér upp lifandi efnahags- og velferðarkerfi sem býr við heilbrigt samkeppnisumhverfi sem hvetur fjárfesta og frumkvöðla til framtaks, athafna og fjárfestinga. Það mun skapa ótal tækifæri sem munu gera okkur öllum kleift að fá vinnu sem henta okkar margvíslegu hæfileikum og áhugamálum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Enga fordóma
Við í Bjartri framtíð viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að hér verði gott að lifa og starfa fyrir alla og allir fái tækifæri til að vera með, án þess að þurfa að þola mismunun og fordóma. Þetta hefur alltaf verið mikilvægt en þó aldrei sem nú á þessum tímum fjölmenningar og margbreytileika mannlífsins og allra þeirra stórkostlegu tækifæra sem því fylgja. Við þurfum að hafa vit á að nýta þessi tækifæri en reisa ekki veggi og óþarfar, gagnslausar hindranir fyrir okkur sjálf og aðra með þröngsýni og kjarkleysi. Stórt skref var stigið í þá átt með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og með samþykkt geðheilbrigðisstefnu til fjögurra ára í vor sem á að tryggja að þeir sem eiga við geðheilbrigðisvanda að etja fái viðeigandi þjónustu hratt og örugglega. Við eigum að sjálfsögðu að leggja höfuðáherslu á að efla forvarnir og mæta börnum sem eiga við ýmis konar raskanir að stríða strax á fyrstu stigum. Börnin okkar eru framtíðin og við berum öll saman ábyrgð á að þau fái öll notið öll hennar. Það er langmikilvægasta verkefnið sem okkur er treyst fyrir, sem einstaklingum og sem samfélagi.

Stöndum saman og vinnum saman!
En að byggja hér upp samfélag sem verður besta útgáfan af sjálfu sér er mikil áskorun; áskorun sem krefst kjarks og þátttöku allra þeirra sem þetta samfélag byggja. Þátttöku stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífsins, fræðasamfélagsins, hvers konar samtaka og félaga og ekki síst alls fólksins sem í landinu býr, ungra og gamalla, kvenna og karla. Við eigum ekki að  einblína á það sem skilur okkur að, okkur greinir á um og sundrar okkur heldur eigum við að horfa fyrst og fremst á það sem við eigum sameiginlegt og hvernig við getum eflt og styrkt það sem sameinar okkur.

Sú ríkisstjórn og það löggjafarþing sem við tekur eftir kosningar verður að taka mannréttindi og skyldur sínar til að gera það sem mögulegt er til að fólki fái jöfn tækifæri mjög alvarlega. Til að tryggja að allir fái notið arðs af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Ekki bara fáir útvaldir. Þannig getum við búið hér til betra og réttlátara samfélag, samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt, samfélag sem setur málefni barna sinna og þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu í forgang, samfélag sem tekur opnum örmum nýjum þegnum sem hér vilja búa, og síðast en ekki síst samfélag sem tryggir eldri borgurum sínum áhyggjulausa göngu inn í sólarlag lífs síns.
Þannig samfélag lendir ekki í hruni, þannig samfélag setur bönd á græðgina, það hafnar hrokanum og metur heiðarleika og ábyrgð miklu meira en munað og auð. Þannig samfélag viljum við í Bjartri framtíð að okkar góða og gjöfula land verði.

Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi