Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Til hamingju Reykjanesbær!
Miðvikudagur 24. maí 2006 kl. 08:43

Til hamingju Reykjanesbær!

Loksins er draumurinn um öflugan byggðarkjarna í Innri-Njarðvíkurhverfi orðinn að veruleika. Það er ekki síst okkur jafnaðar- og félagshyggjufólki sem myndum A-listann fyrir komandi sveitastjórnarkosningar að þakka.

Við sem setið höfum í minnihluta umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar höfum lagt á það mikla áherslu að fengnir hafi verið til skipulagningar á svæðinu hæfir og metnaðarfullir skipulagshönnuðir. Sem betur fer hefur verið fullur skilningur á málinu af hálfu meirihlutans og því er að rísa gríðarlega skemmtilegt byggingarsvæði í Tjarnarhverfi og Dalshverfunum tveimur, sem vel hefur gengið að úthluta til væntanlegra húsbyggjenda. Í dag verður svo lóðarhöfum afhentar lóðirnar við hátíðlega athöfn sem fram fer í Dalshverfi.
Nú er svo Stapahverfi næst á dagskrá en það svæði er í lögboðnu skipulagsferli.

Nikkelsvæðið vonbrigði
Eins hefur svæðið sem eftir var að skipuleggja í Ásahverfi verið skipulagt og var lóðum úthlutað þar fyrir skömmu. Það eru hinsvegar gríðarleg vonbrigði að ekki enn sé farið að byggja á Nikkel-svæðinu. Þar hefur meirihluti Sjálfstæðisflokksins algjörlega brugðist. Komist A-listinn til valda verður það okkar aðaláherslumál í umhverfis- og skipulagsráði að Reyknesbæingar geti sótt um lóð á því svæði sem allra fyrst. Því næst verður hafist handa við að deiliskipuleggja öll eldri og þegar byggðu hverfin í bænum, sem í dag eru óskipulögð. Eingöngu með þeim hætti er hægt að koma í veg fyrir að stórslys verði í grónum byggðarkjörnum eins og dæmin sanna.

D-listinn má ekki hafa alvald í nefndum bæjarins
Um leið og ég óska væntanlegum húsbyggjendum velfarnaðar þá minni ég á að hversu nauðsynlegt fyrir bæjarbúa það er að hafa sem málefnalegastar umræður og vinnu í umhverfis- og skipulagsráði, sem og í öllum öðrum nefndum og ráðum á vegum bæjarins. Því skora ég á kjósendur að íhuga málin gaumgæfilega áður en gengið er inn í kjörklefann. Það yrði stórslys ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði algjörlega einráður, ekki bara í bæjarstjórn heldur í nefndunum líka eins og allt útlit er fyrir í dag. Setjum því X við A á kjördag!

Sigurður Hilmar Ólafsson
A-listamaður í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024