Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Til foreldra skólabarna
Föstudagur 23. febrúar 2007 kl. 00:01

Til foreldra skólabarna

Umræða um skólamáltíðir hefur borið á góma í fjölmiðlum síðastliðna viku. Ýmislegt hefur komið fram sem á fyllilega rétt á sér og má fagna umræðu sem fjallar um mataræði barna og unglinga. Mikilvægt er þó að umræðan og gagnrýni á framleiðslu skólamáltíða sé réttmæt og sanngjörn.

Næringarinnihald og hollusta
Rætt hefur verið um fitumagn í tilteknum kjötafurðum sem eru á boðstólum hjá Skólamat ehf. Sú gagnrýni á að hluta rétt á sér; örlítið hærra fitumagn er í tilteknum kjötréttum sem fyrirtækið býður upp á, en kemur fram í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar. Sérfræðingar fyrirtækisins, í samvinnu við birgja þess, hafa þegar sett af stað vinnu við að þróa réttina enn frekar, þannig að öllum markmiðum Lýðheilsustöðvar megi ná að fullu. Þó ber að hafa í huga að við útreikninga á næringarinnihaldi og ráðlögðum skömmtum er tekið mið af matseðli heillrar viku, en ekki einungis hvers réttar fyrir sig. Suma daga er boðið upp á mjög fitulitla rétti á meðan aðra daga er fituhlutfallið örlítið hærra.
En í allri þessari umræðu má heldur ekki gleyma að sama hversu vel matseðlar líta út næringarlega séð, þá segir það ekki alla söguna. Foreldrar þekkja eflaust margir vandamálið við að koma ofan í börnin sín ýmsum tegundum af mat og það sama gildir í skólanum eins og heima fyrir.
Skólamatur ehf. hefur nú í nokkur ár boðið upp á grænmeti og ávexti með matnum. Fyrir stuttu var skrefið tekið til fulls og tekið hefur verið í gagnið salatbar þar sem börnum er gefinn kostur á að velja sér margs konar grænmeti og ávexti ásamt pasta eða hrísgrjónasalati til tilbreytingar. Markmið með innleiðingu salatbarsins er að auka neyslu barna á grænmeti og ávöxtum og auka fjölbreytnina.

Markmið fyrirtækisins
Skólamatur ehf. setur sér það markmið að bjóða upp á hollan, góðan og heimilislegan skólamat í þeim tilgangi að börnin nærist! Þetta þrennt fer stundum ekki alveg saman, en við gerð matseðla eru öll þessi atriði höfð að leiðarljósi. Við mat á því hvernig fyrirtækinu hefur tekist við að ná markmiðum sínum ber helst að nefna þetta: Skólamatur ehf. styðst við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar við matseðlagerð sína og næringarfræðingur kemur að allri matseðlagerð auk þess sem matreiðslumeistarar framleiða allan mat hjá fyrirtækinu. Starfsmenn fyrirtækisins gera kannanir daglega í skólamötuneytum þar sem lagt er mat á almennt álit og ánægju barnanna á skólamatnum en einnig eru gerðar faglegar þjónustu- og ánægjukannanir meðal nemenda, framkvæmdar af fulltrúum sveitarfélaganna. Að auki ber þess að geta að fyrirtækið leitast eftir áliti foreldra og nemenda á skólamáltíðum við hvert tækifæri sem gefst.

Skólamatur ehf. hefur fullan hug á því að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið síðustu ár. Fyrirtækið hefur verið í fararbroddi á Íslandi í því að bjóða upp á heimilislegar og hollar skólamáltíðir. Með aðstoð viðskiptavina sinna og góðri og uppbyggjandi gagnrýni mun fyrirtækinu takast að halda sér í forystu.

Fanný S. Axelsdóttir, framkvæmdastjóri
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024