Til aðgæslu
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ skrifar grein í Morgunblaðið mánudaginn 8. ágúst sl. Hann fer mikinn og kveinkar sér undan pólitískri gagnrýni og fjölmiðlaárásum á meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem hann segir hafa haldið sjó og hreinum meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Það er engin búmaður nema hann barmi sér. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ er enginn búmaður. Hann kann ekki og skilur ekki kosti ráðdeildar og sparsemi.
Áratugur hina fífldjörfu og sjálfumglöðu
Á þeim rúmlega 9 árum sem sjálfstæðismenn hafa haft hreinan meirihluta í Reykjanesbæ, hefur hann rústað fjárhag Reykjanesbæjar. Hann seldi allar skólabyggingar bæjarfélagsins til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar fyrir hlutafé sem nú er glatað. Hann seldi hlut bæjarfélagsins í Hitaveitu Suðurnesja sem nú liggur í óseljanlegu skuldabréfi á gjaldaga 2016. Óseljanlegu, vegna þess skuldabréfið er í raun afleiða og ber afar lága vexti. Ljóst er að tafir á efndum ríkisstjórnar hafa ekki kostað bæjarsjóð Reykjanesbæjar stórar fjárhæðir heldur fífldirfska meirihluta sjálfstæðismanna með bæjarstjórann í broddi fylkingar. Árlega greiðir bæjarsjóður Reykjanesbæjar um 450 milljón króna í vaxtagreiðslur af lánum sem fóru í ótímabærar framkvæmdir, sem seint skila mörgum krónum í tóma hafnar- og bæjarsjóði.
Helguvík, djarfa skákin
Í greininni segir bæjarstjórinn að ríkisstjórnin hafi dregið að greiða tilskildar greiðslur sem tillegg til hafnarframkvæmda í Helguvík. Það er fífldirfska að fara í 1.200 miljón kr. framkvæmdir upp það eitt að ætla á að fá styrk sem allir aðrir hafa fengið. Þegar ráðist var í dýpkunarframkvæmdir í Helguvík lá fyrir að þær tækju um 12 mánuði og það stóðst. Einnig lá fyrir að þörf álversins fyrir höfnina yrði ekki knýjandi fyrr en 24 mánuðum eftir að framkvæmdir við álverið færu á fullt. Vaxtabyrði íbúa Reykjanesbæjar vegna þessara framkvæmda í Helguvík eru ekki minni en 80 milljónir á ári. Vaxtabyrði vegna allra skulda Reykjaneshafnar eru varlega taldar um 375 milljónir, vegna 5,5 milljarða kr. skulda sem á hafnarsjóði hvíla. Allt í ábyrgð bæjarsjóðs Reykjanesbæjar. En bæjarstjórinn forðast að minnast á ábyrgð sína og meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ á þessu klúðri.
Skipulag og lóðir
Íbúafjöldi í Reykjanesbæ árið 1997 var 10.395 en árið 2009 14.081 sem þýðir um 2,62% fjölgun á ári. Árið 2004 var hafist handa við skipulag og gatnaframkvæmdir í Innri-Njarðvíkur neðra Dalshverfi, 2007 í efra Dalshverfi. Árið 2006 þegar varnarliðið fór af landi brott tók ríkissjóður við 6000 manna byggðarlagi sem kallað er í dag Ásbrú, byggðarlagi með innviðum s.s. skólum, flugskýlum, skrifstofum, gistihúsum og íbúðarhúsnæði. Allar íbúðir sem varnarliðið skildi eftir sig hefðu dugað til sem samsvarar 16 ára fólksfjölgun í Reykjanesbæ. Því var ótímabært að taka 680 milljón króna lán til gatnaframkvæmda í efra Dalshverfi í Innri-Njarðvík. Vaxtagreiðslur vegna þessara lána er ekki minni en 40 milljónir á ári. Í Dalshverfunum báðum eru heilu göturnar óbyggðar og við margar götur standa fullbyggð hús, en tóm. Auk þess stendur auður fjöldi íbúða og húsa á Ásbrú, Njarðvík, Keflavík og Höfnum.
Framtíðin
Upptalning bæjarstjóra á allskyns tækifærum svæðisins eru góð og þörf. Tækifærin eru mýmörg og styrkleikar Suðurnesja eiga að endurspeglast í þeim, eins og tækifæri tengd flugi og sjávarútvegi. Höfum ráðdeild og sparsemi að leiðarljósi, ekki fífldirfsku meirihluta Reykjanesbæjar síðastliðinna kjörtímabila. Dæmin um fífldirfsku bæjarstjóra og meirihlutans í Reykjanesbæ eru fleiri en þau sem ég hef minnst á hér.
Ríkisstjórn Íslands verður hinsvegar að að opna augun fyrir þeirri staðreynd að ekki er hægt og verður ekki hægt að skattleggja þjóðina út úr kreppunni, Ísland verður að framleiða sig út úr henni.
Kristinn Þór Jakobsson