Því sem Möller sleppir...
Kristján Mölller reynir að bera hönd fyrir höfuð sér í VF gagnvart þeirri staðreynd að hafa ekki svarað okkur um aðstoð ríkisins við að koma að fjármögnun Helguvíkurhafnar. Hann víkur alltaf undan þeirri staðreynd að við óskuðum eftir aðstoð ráðuneytisins til að koma framkvæmdinni fram, þegar hann var þar ráðherra, en hann hirti ekki um að svara okkur.
Á þeim fimm árum sem undirbúningur álvers hefur staðið, kom skýrt í ljós vilji ráðamanna í fyrri ríkisstjórn að leggja fjárstuðning til Helguvíkurhafnar þegar þörf væri, líkt og gert var um allar aðrar hafnir tengdar álverum, miðað við áfangaskipta uppbyggingu í Helguvík. Í þeim viðræðum stóð Böðvar Jónsson sig afar vel. Ekki þarf að minna okkur á að ríkið fær 1 milljarð á hverjum mánuði í nettótekjur af slíku álveri. Þetta var ekki skrifleg yfirlýsing ráðuneytanna heldur ítrekaður vilji bæði fjármálaráðherra og samgönguráðherra á þeim tíma. Þegar kom svo að því að efna þetta loforð var Kristján orðinn samgönguráðherra. Allir vissu um áhuga hans fyrir álveri á Bakka og sumir vissu að hann taldi Helguvík trufla verulega þau áform. Við buðum honum ítrekað að koma og sjá framkvæmdir og ræða málið. Hann þáði það aldrei, kom því ekki við!
Sá fundur sem við áttum svo með honum í ráðuneytinu sannaði áhugaleysi hans fyrir málinu. Ráðuneytið bar strax fyrir sig að það væri ekki lengur leyfilegt að styrkja þetta verkefni í gegnum samgönguáætlun og ef eitthvað ætti að gera þyrftu að koma til sérlög, líkt og í tilviki Landeyjahafnar eða breytingar á lögum. Á fundi með ráðherra spurðum við hvort við fengjum þá stuðning ráðuneytis við slíkum breytingum og játaði ráðuneytisstjórinn því, en Kristján sagði ekkert um það. Síðan höfum við óskað eftir upplýsingum um undirbúning að þessari lagagerð en engin svör hafa komið- engin!
Hér eru staðreyndir málsins í síðasta bréfi til ráðuneytisins. Einu ári síðar hefur þessu bréfi ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan.
Árni Sigfússon.