Þurfum samstöðu sem aldrei fyrr
Um miðja síðustu öld var Hafnargatan í Keflavík alræmd fyrir holur og hristing þegar bílar óku hana. Skyldi engan undra enda gatan þá malarvegur, nærri sjó. Í roki og rigningu má segja að Hafnargatan hafi verið ill fær. Svo gerðust undrin. Dag einn birtust stórvirk vinnutæki og allt í einu var Hafnargatan orðin steyptur vegur . Keflavík var eina bæjarfélagið á landinu sem gat státað af steyptum vegi. Segja má að þarna hafi hið unga bæjarfélag þróast úr mold í steypu og orðið nútímalegri en áður þekktist. Hvernig gat þetta gerst? Valtýr heitinn Guðjónsson, þáverandi bæjarstjóri, sagði mér frá því meðan hann vann sem fjármálastjóri í FS. Þeir náðu sjaldgæfri samstöðu í bæjarstjórn og gengu á fund þáverandi forsætisráðherra, Ólafs Thors, og bentu honum á ástandið en jafnframt leiðir út úr því (m.a. í gegnum verktaka á Vellinum). Vegna hinnar óbilandi samstöðu heimamanna hreifst forsætisráðherra svo að skipun var gefin og árangur náðist: Vegna samstöðu heimamanna!
Nú sem aldrei fyrr þurfum við á slíkri samstöðu að halda. Sundurlyndið og pólitískur metingur er það sem halda mun okkur í heljargreipum. Tilefni þessara orða er grein gamals skólafélaga míns á vef VF. Hún virðist nokkuð mikið á skjön við þá umræðu sem manni finnst almenn í bæjarfélaginu: Hvatning um að við snúum bökum saman.
Hver er staðan?
Örugglega má taka til í bæjarrekstrinum eins og alls staðar annars staðar. Við vitum líka að stærsti útgjaldaliðurinn eru laun fyrir kennara í leikskólum og grunnskólum, hina öflugu félagsþjónustu, elliheimili o.s.frv. En mestu máli skiptir líklega að hér er atvinnuleysið mest. Hvergi á landinu sjáum við jafn háar tölur. Gleymum því ekki að Kaninn fór og yfir 1000 manns misstu vinnuna. Gleymum því heldur ekki að meðaltekjur hér eru lægri en víðast annars staðar sem þýðir að bærinn okkar fær minna í kassann en aðrir. Gleymum því ekki að eftir hrunið hefur dregið verulega saman í FLE, stærsta vinnustað á Suðurnesjum. Þetta eru einfaldar staðreyndir sem lesa má af töflum Hagstofunnar. Auðvitað hefur þetta áhrif á okkur öll og gerir rekstur bæjarfélagsins fjandi erfiðan. Skiptir engu hvaða flokkar réðu þar – reksturinn hlýtur að vera afar þungur. En hvað er til ráða?
Malarvegur eða steyptur?
Við slíkar aðstæður er í raun bara tvennt sem kemur til greina: Gefast upp og halda sig á“ holóttum malargötum“ eða hins vegar leita tækifæra til að byggja upp. Við verðum að búa til öflugt atvinnulíf, skapa ný störf og aukin verðmæti. Til allrar hamingju virðist almenn og mikil samstaða um það. Verkefni á borð við Helguvík, ECA, Ásbrú, einkasjúkrahús, gagnaver, kísilmálmverksmiðju, Keili (með yfir 100 störf nú þegar), iðjuver tengt Reyjanesvirkjun og fleira gæti falið í sér yfir þúsund störf á svæðinu og það vel launuð störf. Ég held að allir núverandi flokkar í bæjarstjórn hafi haft þetta á stefnuskrá sinni í síðustu kosningum. Í raun var kosið um þessi hugsanlegu tækifæri í atvinnulífinu. Þar fengust úrslit (lýðræðið talaði) og bæjarstjóri hefur fylgt þessari atvinnustefnu eftir sem flestir aðrir. Aðeins fá þessara verkefna eru samt enn í höfn og önnur standa tæpt. Ég veit að forystufólk allra flokka hér suðurfrá er að vinna að því bakvið tjöldin að ýta þeim áfram með öllum tiltækum ráðum. Þess vegna er ég ósáttur við tóninn í grein Skúla. Mér finnst hann fara gegn þeirri samstöðu sem við þurfum á að halda meira en nokkru sinni fyrr og gegn fólki úr öllum flokkum sem vill sjá hér uppbyggingu.
Samstaða er eina vopnið!
Til allrar hamingju hefur bærinn okkar tekið framförum. Við erum ekki lengur á holóttum malarvegum. Lengi voru Keflavík/Njarðvík með ljótari bæjarfélögum af sjó séð. Strandleiðin (sem ég geng nánast daglega) hefur gjörbreytt þeirri sýn, Víkingaheimar með Íslendingi munu verða eitt aðal aðdráttarafl í ferðamennsku og lýsir stórhug, Duus-húsin sækja um 40.000 manns á ári, í Helgvuík er tilbúin höfn og lóð fyrir fjölbreytta og mannfreka starfssemi, Ásbrú er orðin þekkt um allt land og út fyrir landsteina með um 50 fyrirtækjum þar þegar á skrá, bærinn talinn veita háa félagsþjónustu og þannig má áfram telja. Ég held að flestir séu sammála um gildi þess að þróa bæjarfélagið áfram þannig að það verði eftirsótt til búsetu og eftirsótt til atvinnusköpunar. Við gerum það ekki með árásum á hvert annað. Við gerum það ekki með úrtölum gagnvart þeim verkefnum sem unnið er að. Við þurfum að hafa skýra framtíðarsýn og kjark til að berjast fyrir henni. Samstaðan á að vera vopn okkar – sundurlyndið kæfir okkur. Gleymum því ekki að við erum í samkeppni við önnur svæði og margir virðast tilbúnir að leggja stein í götu okkar. Eina leiðin til árangurs er samstaða.
Hjálmar Árnason.