Þurfum samfélagslega skilvirkni í sjávarútvegi
Sláandi tölur bárust frá Fiskistofu fyrir stuttu, þar sem kom fram að fjöldi fyrirtækja með aflahlutdeild hefur fækkað um tæplega 600 á rétt rúmum tíu árum og standa nú aðeins 382 fyrirtæki eftir.
Þessari gríðarlegu samþjöppun á aðgangi að fiskauðlindum Íslands hefur verið lýst af stuðningsmönnum þróunarinnar sem „aukin skilvirkni". Það er að sumu leyti satt, stærri vinnslueiningar og lóðrétt samþætting minnkar kostnaðinn við vinnslu á hverju þorskígildiskílói. Þetta er eitt form skilvirkni.
Annað form skilvirkni er samfélagslegs eðlis. Það er engum til framdráttar að landsbyggðin leggist smám saman af. Það raskar lífi fólks, dregur úr fjölbreytni og dregur úr möguleikum á atvinnu. Við það glatast bæði uppbyggingin sem hefur átt sér stað og menningin og tengslin sem móta sjálfsímynd íbúanna.
Vísbendingar um samþjöppun
Það er ekki stórfelld hætta á að heilu byggðirnar fari að leggjast af á næstu árum, en það er víða hægt að sjá vísbendingar um að samþjöppunin í fiskiðnaði sé að valda skaða. Við þurfum að ákveða hvort og þá hvernig við bregðumst við þeirri áskorun.
Það er ekki gagnlegt að niðurgreiða óskilvirkni eða setja reglur sem koma í veg fyrir aukna skilvirkni. Þau stóru og vel reknu fyrirtæki sem hafa byggt sig upp með góðum ákvörðunum eru mikilvægt fyrir samfélagið.
Fáum fyrirtækjum líft til lengdar
Það er hins vegar gagnlegt að tryggja að leikreglurnar komi ekki í veg fyrir fjölbreytni eða framþróun. Það er staðan í dag. Leikreglur sjávarútvegarins gera það að verkum að það er fáum fyrirtækjum líft til lengdar öðruvísi en að vera stórvaxin og lóðrétt samþætt.
Til að stemma stigu við þessu lögðu Píratar fram í vor frumvarp mitt og Gunnars I. Guðmundssonar um að auka verulega fjölda veiðidaga báta á strandveiðum. Strandveiðar eru sú aðgerð til stuðnings smærri fyrirtækja í sjávarútvegi sem hefur skilað mestri skilvirkni bæði samfélagslega og efnahagslega. Í dag eru um 650 bátar sem nýta strandveiðikerfið, en mismunandi aðstæður landshluta hafa valdið misskiptingu innan kerfisins, þrátt fyrir mikinn áhuga á því að stunda strandveiðar. Frumvarpið lagar þessa landshlutamisskiptingu og eykur um leið heildaraflamarkið í kerfinu.
Ótrúverðugar afsakanir
Þetta frumvarp gekk til atvinnuveganefndar, þar sem Páll Magnússon hefur gegnt formennsku, en þar komst málið ekki á dagskrá nefndarinnar þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Ýmis konar afsakanir voru gefnar, en í rauninni var hreinlega lítill áhugi á að leyfa frumvarpinu að fá eðlilega umræðu, af ótta við að einhverjir hagsmunir myndu raskast. Það er miður, því frumvarpið var einmitt hannað með það fyrir augum að engum yrði meint af, en að leikreglurnar í sjávarútvegi yrðu örlítið jafnari.
Atvinnumálin á Íslandi eru að mörgu leyti í góðu standi, en þegar einstaka bæir eru skoðaðir vakna spurningar um hvernig framtíðin okkar líti út. Atvinnutækifærin í mörgum bæjum fara minnkandi og fyrir því eru margar ástæður. Við þurfum að kryfja allar ástæðurnar fyrir því og laga þær smám saman. Umræðan þarf í það minnsta að fá að eiga sér stað.
Smári McCarthy
þingmaður Pírata og í 1. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi