Þunglyndi karla - Lítið vitað um enn vegna vöntunar rannsókna í samfélaginu
Af hverju viljum við greina þunglyndi – hverjar eru afleiðingar þunglyndis?
Ástæðan fyrir því að við viljum greina þunglyndi er að það hefur margar alvarlegar afleiðingar á einstaklinginn, s.s. einangrun, óvirkni, verri lífsgæði, aukna hættu á lífsleiða, dauðaóskum, sjálfsvígstilraunum og jafnvel sjálfsvígum –Ekki má gleyma þeim afleiðingum sem síðan þunglyndissjúkdómurinn hefur á fjölskyldu þess sem er veikur til að mynda áhyggjum og vanlíðan. Hvernig verður hann á morgun? Ein afleiðing þunglyndis er að ef það varir mjög lengi þá verður meðhöndlun erfiðari, ef ekki er byrjað að meðhöndla sjúkdóminn snemma þá duga lyf eða aðrar hugrænar meðferðir ekki jafn vel. Mikilvægt er því að greina sjúkdómseinkenni sem fyrst.
Hvers vegna er mikilvægt að rannsaka karlmenn sérstaklega.
Fyrri rannsóknir sýna að um 15% karla og 30% kvenna séu í hættu á að fá veruleg þunglyndiseinkenni einhvern tíma á lífsleiðinni. Hvers vegna er svona mikill kynjamunur í rannsóknum? Getur þunglyndi karla verið vangreint ? Verður að líta á þunglyndi karla öðrum augum en kvenna jafnvel beita öðrum aðferðum til að greina sjúkdóminn hjá körlum ? Gætu karlar haft önnur einkenni en konur sem við greinum ekki nógu vel?
Í mörg ár höfum við vitað að áfengissýki er a.m.k helmingi algengari hjá körlum. Í flestum rannsóknum er einungis borin saman tíðnin milli karla og kvenna en vísindamenn hafa yfirleitt ekki skilgreint hvað skilur á milli þunglyndis einkenna kynjanna. Í flestum rannsóknum taka hinsvegar miklu fleiri konur þátt en karlar. Hvers vegna ? Er það vegna þess að þegar karlinn er þunglyndur þá verður hann pirraðri, önugri, árásargjarnari og neitar einfaldlega að taka þátt í slíkri rannsókn ? Eru konurnar minna lokaðar og tjá sig betur við heilbrigðisstéttir? Eru karlar lítið fyrir að sækja sér aðstoð? Eru karlar í meiri afneitun? Ýmsir vilja halda því fram að karlar leiti frekar til læknis með líkamleg einkenni og afneiti um leið andlegri vanlíðan sinni eða depurð. Það eru hinsvegar engar sannanir til fyrir því enn. En við vitum að sjálfsmorðstíðni hjá körlum er miklu hærri en hjá konum. Á Íslandi er hún a.m.k. 3-4 sinnum hærri – og munurinn er enn meiri fyrir unga karla og þá elstu. Hver er ástæðan fyrir þessu? Ennþá merkilegra er að sjálfsvígtilraunir eru margfalt algengari hjá konum.
Skilgreining á þunglyndi karla
Kynjabundin nálgun á ýmsum vandamálum hefur orðið vinsælli síðast liðin ár vegna þess að vísindamenn virðast betur sáttari um að kyn skipti meira máli en áður var talið. Hópur sænskra lækna lyfti fram hugtakinu ,,karlaþunglyndi” fyrir nokkrum árum. Skilgreining þeirra er mjög víð: þeir telja að karlar hafi lítið þol gegn álagi, séu árásargjarnari, hafi minni hvatastjórn, verði frekar þreyttir og fái s.k. ,,burn-out”, kulnunnar einkenni. Þeir finni frekar fyrir tómleika og vanlíðan, langvinnri þreytu, pirringi, óeirð, morgunkvíða, svefntruflunum, sofi sundurlausum svefni, finni sjaldan til ánægju og þeir eigi erfitt með að taka ákvarðanir. Þeir sæki í meiri vinnu og verði oftar haldnir spilafíkn. Misnotkun á áfengi getur líka komið sem fylgikvilli. Hjá körlunum geti fylgt þessu ákveðinn erfðaþáttur, þ.e. að í ættinni er saga um sjálfsvíg, þunglyndi og alkóhólisma. Vert er að benda á að almenn einkenni þunglyndis hjá bæði konum og körlum er að einstaklingurinn lítur á tilvist sína sem neikvæða og hann hefur svarta framtíðarsýn, sem kalla mætti bölsýni. Vonleysi, áhugaleysi, uppgjöf í hugsun fylgir oftast lágu geðslagi (að vera daufur eða meyr). Ástandið breytist lítið og er viðvarandi í lengri tíma.
Hvað verndar, hvað er hægt að gera ?
- Ef við hugsum um forvarnir þá er mikilvægt að vita meira um þunglynda einstaklinga og rannsaka betur karla hópinn sérstaklega. Þunglyndi þarf ekki alltaf að byrja sem þunglyndi. Oft byrjar það sem kvíðasjúkdómur og sé hann ekki meðhöndlaður getur kvíðasjúkdómurinn endað sem þunglyndi. Þeir sem eru með áráttu- og þráhyggjusýki koma t.d. yfirleitt ekki til læknis fyrr en þeir eru komnir með þunglyndi líka. Sama gildir um þá sem eru með fælni. Þeir hafa verið feimnir og fælnir allt frá blautu barnsbeini en það er ekki fyrr en þeir eru líka orðnir þunglyndir vegna ástandsins sem þeir koma til læknis.
Tökum þátt til að læra til framtíðar !
- Í rannsókn sem er hafin á Suðurnesjum er karlmönnum boðið að koma í skimun fyrir þunglyndis-, streitu- og spennu einkennum. Síðan er hluta hópsins boðið að koma í viðtal hjá geðlækni. Öllum þeim sem eru í minnsta grun um að hafa þunglyndi býðst geðlæknismat. Stresshormón verða einnig mæld í munnvatni. – Með þessari rannsókn er reynt að leggja nýjan grunn að rannsóknum á eðli þunglyndis hjá karlmönnum. Það er von mín að karlmenn sinni þessari rannsókn svo hægt sé að komast áleiðis í mati á áhættuþáttum þunglyndis og um leið gætum við fundið út hvað verndar. Mikilvægt er að allir sem til eru kallaðir taki þátt líka þeir sem eru fullfrískir. Öll viljum við gera allt til að vernda börnin okkar fyrir því að fá þunglyndi? Hér er því unnið til framtíðar.
Sigurdur Páll Pálsson
útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands 1985. Hann stundaði framhaldsnám í geðlæknngum við háskólasjúkrahúsid í Gautaborg frá 1989 til 1993. Hann hefur unnið sem sérfræðingur á geðdeild Landspítalans frá 1996. Hann lauk doktorsprófi árið 2000 frá Gautaborgarháskóla og fjallaði ritgerð hans um algengi, nýgengi og afleiðingar þunglyndis.