Þjónustusamningar eiga að tryggja þjónustuna við neytendurna
Kröfurnar um hádegismáltíðir í skólum komu í kjölfarið á samfelldum skóladegi. Þá voru allar aðstæður til að framreiða hádegismáltíðir í skólunum frumstæðar og kröfurnar í samræmi við það.
Strax upp úr árinu 1990 fórum við að hugsa um skólamáltíðir og hvernig mætti standa að þeirri framleiðslu. Árið 2000 varð verkefnið að raunveruleika með afgreiðslu á mat í flugvélabökkum til grunnskóla. Síðan hefur mjög margt breyst og batnað, fyrst og fremst vegna skoðanaskipta hagsmunaaðila; foreldra, kennara, matvælaframleiðenda og svo að sjálfsögðu nemendanna sjálfra.
Matarhefðir íslendinga byggja á gömlum hefðum en með auknum samgöngum, meiri menntun og þekkingu á matarframleiðslu og stórauknum áhuga almennings á mat almennt hafa kröfur almennings og smekkur breyst mikið.
EN það er ekki alveg víst að börnin okkar séu alveg eins nýungagjörn og áhugasöm og við um mat. Okkar reynsla sýnir a.m.k. að börnin vilja helst einfaldan, hefðbundin og góðan mat.
Undanfarin þrjú ár höfum við boðið upp á meðlætisbar þar sem nemendur geta valið sér grænmeti og ávexti að eigin smekk. Eftir að þessi háttur var tekin upp þrefaldaðist neysla grænmetis og ávaxta. Einnig hefur þessi framsetning á grænmeti og ávöxtum víkkað smekk nemenda fyrir nýjum matartegundum, þar sem nemendur geta sjálfir ráðið hvað þeir fá sér og hvernig.
Þegar við spyrjum nemendur hvað þeir vilja sjá á matseðilinum þá nefna þeir strax pizzur, hamborgara og þessháttar. EN ef við biðjum um frekari tillögur, fyrir utan þetta þá nefna þeir oftast hefðbunding þjóðlegan mat eins og grjónagraut, fiskibollur, kjötbollur, steiktan og soðin fisk. En nemendur vilja að maturinn sé framreiddur á einfaldann hátt, það má engu blanda saman, allt verður að vera sér. Og þeir vilja sjálfir ákveða hvort sósan á að vera ofaná eða til hliðar, ekki blanda saman grænmetistegundum í eina skál heldur vilja þeir fá að velja sér sjálfir.
Þetta höfum við fundið út með því að fylgjast með nemendum og tala við þá. Út frá því göngum við og höfum náð góðum árangri með því einu.
Við sem störfum að framleiðslu skólamáltíða þurfum að huga að mörgum þáttum, t.d. : matseðlum, verðlagningu, staðfestum innihaldslýsingum hráefnis, hreinlæti, þjónustu og viðmóti, lengd matartíma og umhverfi matsala. En allt starfið þarf að miða að því að hagsmunir nemendanna sjálfra séu ávallt hafðir í fyrsta sæti.
Það á t.d. ekki að vera flókið að allir fari eftir settum reglum, t.d. varðandi innihald matarins eða hlutfall fiskmáltíða, kjötmáltíða, rétta úr unnum kjötvörum eða annara rétta á matseðlum. Þetta mætti leysa með því að gera þjónustusamninga við þá sem sjá um matreiðslu í skólaeldhúsum. Þannig gætu sveitarfélög sem kjósa að hafa sérstakan matreiðslumann í hverjum skóla gert þjónustusamning þar sem tilteknar eru kröfur sem viðkomandi þarf að uppfylla. Þetta er ekki flókið, þetta er einfalt allveg eins og skólamáltíðir eiga að vera og þannig eru þær bestar og vinsælastar.
Við hjá Skólamat höfum nú í vetur unnið að þróunarverkefni sem felst í því að við framleiðum fisk- og kjötbollur frá grunni í okkar eldhúsi. Með því getum við enn betur boðið upp á vörur sem henta okkar viðskiptavinum.
Reynslan hefur kennt okkur hjá Skólamat að samstarf og óheft skoðanaskipti eru forsenda árangurs og jákvæðrar þróunar. Þessvegna teljum við að núna væri heppilegt að boða til málþings um skipulag skólamáltíða. Þar væri hægt að fara yfir þróun undanfarina ára frá ólíkum sjónarhornum og hlusta á tillögur sem byggja á reynslunni. Á svona málþing mætti boða t.d. : foreldrafélög, nemendafélög, skólastjórnendur, sveitarstjórnir, matvælaframleiðendur, innflytjendur matvæla, matreiðslumenn og verkalýðsfélög.
Umfram allt skulum við halda áfram að vinna að lausn þessara mála og hafa í fyrsta lagi hag barnanna í huga.
Greining matseðla Skólamatar ehf. veturinn 2009/2010:
Næringargildi, 09/10 Meðaltal hitaein. á hvern skammt 516,4
Áherslur :
- Máltíð sem uppfyllir 30% af næringarþörf nemenda, skv. ráðleggingum Lýðheilsustöðvar
- Meðlætisbarir hafa þrefaldað grænmetis- og ávaxtanotkun
- Áhersla á „heimalagaðar“ uppskriftir og rétti, t.d. fiskibollur.
- Samstarf við nemendur, foreldra og sveitarfélög
- Hollan og ferskan mat sem nemendur vilja
- Lokaeldun sem fer fram í skólanum sjálfum
Gæðaeftirlit :
- Eftirlitskerfi og gæðastaðlar SM á öllum vörum
- Næringarútreikningar matseðla
- Innihald hráefnis rannsakað hjá „Sýni”
- Hreinlætiseftirlit í eldhúsum
Skólamatur ehf.
Jón Axelsson.