Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 12. febrúar 2002 kl. 10:01

Þjónustumiðstöð fyrir aldraða - lítið eitt um skipulagsmál

Nú á vormánuðum verða teknar í notkun 25 félagslegar leiguíbúðir fyrir aldraða hér í Reykjanesbæ. Þetta eru viðbrögð sveitarfélagsins við þeirri þróun sem er að eiga sér stað, hér sem annars staðar, að fjöldi þeirra sem eldri eru, er stöðugt að vaxa. Fjölskyldu- og félagsmálaráð Reykjanesbæjar lagði til á sínum tíma, að samhliða þessum íbúðum, yrði byggð þjónustumiðstöð fyrir aldraða íbúa þessa sveitarfélags.Því var hafnað á þeirri forsendu að ekki væri hægt að finna henni stað á þessu svæði. Nú er svo komið að flestar íbúðir fyrir aldraða eru á skrúðgarðssvæðinu þ.e á Suðurgötu, Kirkjuvegi og Aðalgötu. Tel ég þessa þróun vera af hinu góða m.a. vegna nálægðar við sjúkrahúsið og aðra þjónustu. Því tel ég nauðsynlegt að þjónustumiðstöð fyrir aldraða verði fundinn staður á þessu svæði. Í þriggja ára áætlun sem nú er til umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn er hvergi að sjá að gert sé ráð fyrir þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að þjónustumiðstöðinni verði fundinn staður og hún verði tekinn inn í áætlun. Ég vil setja fram hugmynd sem gæti verið tilefni umræðu og ég tel að myndi leysa þennan staðsetningarvanda þjónustumiðstöðvar.

Skrúðgarðurinn í Reykjanesbæ yrði notaður til aframhaldandi uppbyggingar fyrir aldraða og þjónustumiðstöðin byggð þar. Púttvöllurinn yrði færður af Mánagötu og yfir í skrúðgarðinn. Byggður yrði skrúðgarður þar sem núverandi íþróttavellir eru við Hringbraut. Sameiginlegt íþróttasvæði yrði byggt fyrir ofan Reykjaneshöllina.

Með þessu næðum við ýmsu fram. Við gætum haldið áfram uppbyggingu fyrir aldraða á þessu svæði, við leystum bílastæðavandræði við sjúkrahúsið, við fengjum sameiginlegt íþróttasvæði fyrir báða kjarnana, Keflavík og Njarðvík og við fengjum betri nýtingu á Reykjaneshöllina.
Ég mun leggja áherslu á að þessari umræðu verði fram haldið, fái ég til þess brautargengi í prófkjöri Samfylkingarinnar þann 23. febrúar næstkomandi.

Guðbrandur Einarsson
varabæjarfulltrúi og fulltrúi
Samfylkingarinnar í Fjölskyldu og félagsmálaráði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024