Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Þjónandi bæjarstjórn fyrir fólkið
  • Þjónandi bæjarstjórn fyrir fólkið
Föstudagur 23. maí 2014 kl. 13:17

Þjónandi bæjarstjórn fyrir fólkið

– Dagný Alda Steinsdóttir skrifar

Það er langt síðan að ég áttaði mig á því að það fer betur fyrir bæjarmál að þau snúist ekki um harða pólitík, heldur eiga bæjarmál að snúast um hvernig við getum stuðlað að góðum fyrirtækjarekstri, þar sem markmiðin byggjast á heilbrigðu viðskiptauphverfi og afkomu.   Bærinn okkar er fyrirtæki á krossgötum.  Staðan er þannig í dag að skuldir eru miklar og tekjur standa vart undir rekstri.  Þetta er erfið staða sem við höfum áhyggur af og í öllum venjulegum fyrirtækjarekstri væri búið að gefa út afkomuviðvörun og löngu búið að stokka upp í framkvæmdastjórninni og gerð krafa um breytingar.  Þau viðbrögð er bara heilbrigð skynsemi í mínum huga, en því miður er það oft svo að umræðan um stöðuna færist í pólitískt karp, þar sem heilbrigða skynsemin er ekki höfð í fyrirrúmi.

Ný forysta
Breytingar eru ekki auðveldar en ný forysta með nýjar hugmyndir og öðruvísi sjónarmið er einmitt það sem þörf er á.  Ég vil að Reykjanesbæ njóti góðs af blómstrandi og sívaxandi ferðamannaiðnaði, sem nú er að skila næstum jafnmiklum tekjum í ríkiskassann og sjávarútvegurinn.  Allar flugvélar sem lenda hér á Keflavíkurflugvelli ættu að innihalda tímarit sem fjallar um Reykjanesið, skoðunarferðir, áfangastaði, hótel, veitingarstaði og verslanir.  Vöntun á upplýsingum gefur til kynna að þeir, ferðamennirnir, eru lentir á einhverri auðn og hollast sé að hypja sig sem fyrst til Reykjavíkur.

Ég vill sjá grænmetisræktun í Helguvík.  Ég er sannfærð um að sú hugmynd er ekki sú galnasta sem sett hefur verið fram. Við getum lært margt af Hollendingum sem rækta grænmeti með orkusparandi LED ljósum í margra hæða byggingum.  Hver segir að við getum ekki gert það í þessum steypuklumpum í víkinni, hver myndi hunsa lífrænt grænmeti ræktað með jarðhita orku?
 
Ferskur fiskur fer héðan samdægurs til Evrópu og Norður Ameríku og því ekki grænmeti ræktað með hreinustu orku sem völ er á? Þetta eru bara hugmyndir en af einni hugmynd spretta aðrar.  Þannig var það með ljósaperuna hans Edisons, aumingja maðurinn það vildi enginn tala við þann rugludall.

Opnum augun
Það er kominn tími til að opna augun og þora að koma fram.  Hættum að fela okkur undir pólitískum merkjum, gefum fólki, hugmyndum og öðruvísi lausnum tækifæri.   Þessi merki eru ekkert annað en fangamerki sem skilur okkur frá náunganum.  Við erum eins fjölbreytt og við erum mörg og við verðum að fara að vinna saman að betri tíð og láta fordóma fyrir öðruvísi hugmyndum og lausnum lönd og leið.  Hættum að upphefja sjálfa okkur á óförum annarra og lítilsvirða skoðanir þeirra sem eru okkur ekki sammála.  

Bæjarstjórn á að vera í anda þjónandi forystu, skipuð fólki sem hlustar á hugmyndir annarra og gefur nýjum skoðunum gaum,  og vinnur fyrst og síðast með og fyrir fólkið.  Manneskjuleg bæjarstjórn viðurkennir mistök, dregur af þeim lærdóm og heldur svo áfram í rétta átt.  Í okkar samfélagi ríkir ekki ágreiningur um að tjáningarfrelsi sé grunnregla.  Stöndum vörð um hana.

Dagný Alda Steinsdóttir
# 4 á S-Lista samfylkingarinnar og óháðra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024