Þjóðmenning og bænir
Ásmundur Friðriksson skrifar:
Fólk á vinstri væng stjórnmálanna í höfuðborginni hóf fyrir nokkrum árum árásir á kristna trú og iðkun hennar í grunnskólum höfuðborgarinnar. Heimsóknir presta í skólana voru bannaðar og Gideonfélaginu var bannað að gefa skólabörnum Nýja testamentið eins og það hafði gert til margra ára. Þessi góður siður Gideonfélaga hefur treyst kristna trú í landinu og gefið börnum og unglingum tækifæri til að kynnast góðum kristnum gildum sem ekki er vanþörf á í samfélagi dagsins í dag. Trúarlegum þætti jólahalds var úthýst úr skólum í höfuðborginni en jólin eru þó haldin hátíðleg á nánast hverju heimili landsins. Þetta gerðist þrátt fyrir að 86% landsmanna tilheyrðu söfnuðum sem hafa kristna trú að leiðarljósi og því ljóst að allur þorri landsmanna tilheyrir þeim sem vilja standa vörð um okkar „þjóðartrú.“ Kristin gildi eru hluti af daglegu lífi fólksins í landinu og stjórnarskráin er grundvölluð á þeim og slær vörð um kristna trú. Þessar ömurlegu árásir á kristna trú og iðkun hennar voru gerðar á vakt vinstri manna, sem við á hægri vængnum mótmæltum, en hvað er að gerast á okkar vakt?
Ríkisútvarpið undir stjórn nýs útvarpsstjóra sem ráðinn var á „okkar vakt“ ríður nú sama hestinum og þeir sem áður úthýstu kristnidómnum úr skólunum og styður nýjan dagskrárstjóra Rásar 1 í því að taka af dagskránni morgunandakt, morgunbæn og Orð kvöldsins. Ekki er vitað til að þetta dagskrárefni hafi skaðað nokkurn sem hefur hlustað á það eða aðrar kristilegar andaktir sér til yndis frá árdögum útvarps á Íslandi. Er það virkilega svo að opinbert hlutafélag okkar allra, Ríkisútvarpið, ætli að hunsa 86% landsmanna, fjölmennan en þögulan hluta þjóðarinnar sem þykir vænt um bænirnar í útvarpinu og vill hafa þær áfram? Þær eru vissulega þáttur í þjóðmenningunni, hluti af lífi fjölmargra alla ævi og því langt í frá einkamál dagskrárstjórans á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Ég er þess fullviss að þessi ákvörðun er gerð í óþökk mjög margra, þeirra hógværu og lítillátu þegna landsins sem bera harm sinn í hljóði vegna þessarar ákvörðunar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð staðið vörð um þjóðkirkjuna og í ályktun Landsfundar má m.a. lesa: „Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi.“ Ég, sem er kristinnar trúar eins og þorri þjóðarinnar, tek undir þessa stefnu Sjálfstæðisflokksins af heilum hug. Nýr útvarpsstjóri hefur í mörgu farið vel af stað í starfi og ég óska honum góðs gengis. Þessi ákvörðun er hins vegar algjörlega úr takti við góða hefð, siði og hlutverk Ríkisútvarpsins frá upphafi. Þetta getur ekki gerst á okkar vakt.
Ásmundur Friðriksson
alþingismaður.